151. löggjafarþing — 110. fundur,  9. júní 2021.

almenn hegningarlög.

550. mál
[14:21]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið og ég þakka honum sömuleiðis fyrir að leggja áherslu á mikilvægi þessa máls. Það er alveg greinilegt að höfundi frumvarpsins og greinargerðarinnar þykir þetta skipta miklu máli því að fjallað er um þetta í greinargerðinni með allítarlegum hætti. Ég skil hv. þingmann á þann veg að hann telji að dómaframkvæmd kunni að vekja spurningar í málinu og ég óska honum góðs gengis við að kynna sér það mál þannig að hann fái botn í það.

Frú forseti. Í greinargerðinni er ítarlega vitnað til áhættumatsskýrslu greiningardeildar ríkislögreglustjóra en hún er dagsett í maí 2019. Í greinargerðinni segir að þar komi fram að margt bendi til að skipulagt vændi hafi aukist hér á landi og hluti þess tengist erlendum skipulögðum brotahópum. Í framhaldinu segir að vísbendingar séu um „að Ísland sé áfangastaður fyrir mansal og þá einkum vinnumansal innan byggingariðnaðar, veitingareksturs og ferðaþjónustu“.

Í greinargerð er vitnað í skýrslu greiningardeildar ríkislögreglustjóra, með leyfi forseta, þar sem dregið er fram að mikil fjölgun hælisleitenda auki hættuna á mansali. Ég vil kanna hug hv. þingmanns og afstöðu til þessarar ábendingar ríkislögreglustjóra sem ástæða er talin til að koma á framfæri og undirstrika og ítreka í greinargerð með því mikilvæga og góða frumvarpi sem við erum að ræða hér.