151. löggjafarþing — 110. fundur,  9. júní 2021.

almenn hegningarlög.

550. mál
[15:12]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Frú forseti. Ég hef nú komið inn á þetta mál hér áður og fjallaði þá meira um skýrslu sem ríkislögreglustjóri hefur látið gera um leiðbeiningar og verklag fyrir lögreglu og upplýsingar um mansal. Skýrslan er mjög fróðleg og ræddi ég það í minni síðustu ræðu. En ég vil taka fram að ég fagna þessu frumvarpi. Þetta er skref í rétta átt og við í Miðflokknum styðjum það. En mig langaði aðeins að koma inn á hvað við sem samfélag getum gert til þess að sporna við þeirri skipulögðu glæpastarfsemi sem mansal er. Það er mjög fróðleg ritgerð við Háskóla Íslands eftir Dagbjörtu Blöndal sem kemur inn á þetta. Með leyfi forseta ætla ég að grípa aðeins niður í nokkur atriði í þeirri ágætu ritgerð og hvet þingmenn til að kynna sér efni hennar, þar sem hún er mjög góð samantekt um mansal og hvernig það hefur stóraukist á síðastliðnum árum.

Nú er svo komið að skipulögð glæpastarfsemi, þar sem mansal kemur við sögu, er orðin ein þriðja umfangsmesta alþjóðlega glæpastarfsemin á eftir eiturlyfja- og vopnasölu. Þetta er, eins og við þekkjum, brot á mannréttindum þar sem einstaklingar eru þvingaðir í starfsemi eða þjónustu sem þeir hafa ekki samþykkt að veita. Mansal er yfirleitt dulið og ég nefndi það einmitt í síðustu ræðu minni að oft er erfitt fyrir löggæsluna að finna út hvort viðkomandi sé fórnarlamb mansals. Það getur verið vandkvæðum bundið. Þess vegna er skýrsla ríkislögreglustjóra, um leiðbeiningar og verklag fyrir lögreglu, mjög gagnleg vegna þess að það er erfitt að greina hverjir eru fórnarlömb þess.

Þeir sem stunda mansal hafa uppi á fórnarlömbum sínum víðs vegar um heiminn. Þeir finna fólkið sem þeir tæla í einhverja starfsemi sem síðan kemur í ljós að er bara glæpastarfsemi og mansal. Þetta eru yfirleitt einstaklingar sem eru af lægri stéttum þjóðfélagsins og seljendurnir flytja fórnarlömbin oft langt frá sínum heimkynnum og yfirleitt til ríkari landa þar sem þeir selja fórnarlömbin t.d. í vændi. Því betri sem almenn þekking er á mansali og því meira sem stjórnvöld vinna gegn mansali, þeim mun betur gengur að fá þessa heildrænu mynd á umfang mansals og leiðir til að stöðva þessa starfsemi.

Það er nú einu sinni þannig að mansal er ekkert annað en nútímaþrælahald. Þetta er starfsemi þar sem brotið er á mannréttindum einstaklinga og á bak við þessa glæpastarfsemi eru glæpamenn sem nýta sér fátækt og varnarleysi einstaklinga. Þeir einstaklingar sem verða fyrir mansali eru oft að sækjast eftir betra lífi, betri lífskjörum, búa við fátækt og eru að reyna að búa sér til betri framtíð og betra líf. Þeir eru plataðir út í þessa starfsemi með ýmsum loforðum, blekkingum, svikum, nauðungum, valdbeitingu, hótunum og misnotkun. Það er náttúrlega ákaflega sorglegt, frú forseti, að horfa upp á það að fólk sé platað með þessum hætti, beitt alls konar svikum, fólk sem er bara að reyna að leita sér betri lífskjara. Þess vegna eigum við öll að sameinast um það, og almenningur þarf að vera vel vakandi yfir því hvaða vísbendingar eru um að mansal eigi sér stað, að vinna gegn þessari glæpastarfsemi.

Með alþjóðavæðingunni hafa fólksflutningar milli landa aukist til muna og fátækt fólk sem býr á stöðum þar sem mikil upplausn er hefur oft og tíðum ekkert annað val en að leita sér að vinnu utan síns heimalands og þá sérstaklega þar sem atvinnuleysi er hátt og fátækt ríkir. Helstu þolendur mansals eru konur og börn sem eru yfirleitt þvinguð út í kynlífsþrælkun. Fórnarlömbin upplifa líkamlegt og andlegt og kynferðislegt ofbeldi af völdum gerandans. Það getur verið erfitt að átta sig á því og skilja það hvers vegna einstaklingur kemur sér ekki undan slíkum aðstæðum. Þá verðum við að hafa í huga að þetta er vel skipulögð glæpastarfsemi þar sem gerendur beita fórnarlömbin kúgun, þ.e. þeir kúga þau til þagmælsku og hlýðni. Við verðum að átta okkur á því. Mansal er mjög viðamikið og flókið fyrirbæri og til þess að skilja hvað það er þarf maður að skilja rætur þess og úr hvernig umhverfi það er sprottið.

Það er skortur á þekkingu á mansali, bæði hjá þeim sem gætu komið fórnarlömbum þess til aðstoðar og hjá almenningi. Almenning skortir þekkingu og þeir sem eiga að aðstoða. Ég held að töluverð bragarbót hafi verið gerð á því hér á landi, sem betur fer, með sérstökum verklagsreglum fyrir lögreglumenn. En við þurfum hins vegar að tryggja að lögreglan hafi það fjármagn og þann stuðning sem hún þarf til að berjast gegn þessari glæpastarfsemi. Ég hef þá skoðun og ber þá von í brjósti, frú forseti, að Ísland verði í fararbroddi í baráttunni gegn mansali. Við höfum nýlega lokið setu okkar í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna og gerðum þar ágæta hluti sem sýnir hvers við erum megnug á alþjóðavettvangi og á okkur er hlustað. Þó að við séum lítið land er ég þeirrar skoðunar að við séum stórt land á alþjóðavísu þegar kemur að friðarmálum og mannréttindamálum, jafnrétti kynjanna o.s.frv. Við höfum þarna tækifæri til að láta í okkur heyra og við eigum að nýta öll tækifæri til þess. Ég kom inn á það í minni síðustu ræðu að við ættum að nýta okkur þá aðstöðu sem við höfum í þróunarsamvinnunni við ríki sem eru samstarfsaðilar okkar þar; Malaví, Úganda, Síerra Leóne og Líbería. Við þurfum að koma því á framfæri að ein tegund mansals viðgengst í þessum löndum, það eru barnahjónabönd og svo náttúrlega ofbeldi gagnvart stúlkubörnum, limlesting á kynfærum kvenna o.s.frv. Við eigum að koma þessu öllu á framfæri og fylgjast með því að verið sé að vinna bug á þeim hörmungum sem fylgja þessu.

Að bæta þessa þekkingu, bæði hjá lögreglunni og almenningi, myndi auðvelda stjórnvöldum sem og öðrum í samfélaginu að koma auga á hverjir eru þolendur og hverjir eru gerendur mansals. Eftirspurn og möguleikinn á fjárhagslegum ágóða eru þeir þættir sem viðhalda mansali. Þess vegna er almenn fræðsla svo mikilvæg til að draga úr eftirspurninni. Þessi vandi er alþjóðlegur og við þekkjum það og þess vegna fagna ég þessu frumvarpi. Það er skref í rétta átt að við stöndum við skuldbindingar okkar og sýnum í verki að við erum að berjast gegn þeim vágesti sem mansal er. Ríki heims þurfa að vinna saman með skilvirkum og markvissum hætti í þessari baráttu og þess vegna eru alþjóðasáttmálar mjög mikilvægir hvað þetta varðar. Með þeim er náttúrlega verið að reyna að fyrirbyggja, refsa og útrýma þessari skipulögðu glæpastarfsemi. En þessir alþjóðasamningar skuldbinda ríki til að berjast gegn mansali og stuðla að samvinnu milli ríkja, félagasamtaka og stjórnvalda. Við eigum að tala fyrir þessu á alþjóðavettvangi. Við eigum að spyrja spurninga, hvernig ríkjum gengur að uppfylla þessa sáttmála. Það er nú bara þannig að það er ekki nóg að skrifa undir einhverja alþjóðasamninga eða sáttmála um að berjast gegn einhverju og svo ekki söguna meir; bara ein pennaundirskrift og svo gerist ekkert meir. Það þarf að fylgja þessu eftir. Það þarf stanslaust að fylgja því eftir hvað ríki eru að gera til að berjast gegn mansali. Við höfum þennan vettvang, t.d. allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna, til að koma því á framfæri hvað ríki eru að gera til að uppfylla þá samninga sem þau hafa skrifað undir um að berjast gegn mansali. Það þarf stanslaust að vera að fylgjast með svona hlutum. Það er nú einu sinni þannig.

Hér hefur verið rakið í ræðum í hvers lags starfsemi og þjónustu það er sem mansal viðgengst. Í Vestur-Evrópu, ef við horfum þangað, þá er mansal á vændiskonum og kynlífsþrælum að aukast hratt, því miður. Talað er um það í rannsókn Global Report, það er alþjóðleg stofnun sem fylgist m.a. með þessum málum, að aðallega sé verið að flytja konur og börn í þeim tilgangi að nota þau á kynlífsmarkaði, en auk þess hefur mansal vegna atvinnustarfsemi aukist hratt og þá helst í byggingarvinnu. Meginástæðan fyrir því að einstaklingur verður fórnarlamb mansals er fátækt. Hjá þeim sem líða efnislegan skort eru búferlaflutningar, þ.e. að leita sér að betri lífsgæðum, aðlaðandi kostur. Það er neyðarbrauð að reyna að bæta lífskjör sín og það er einmitt það sem glæpamenn nýta sér. Þeir nýta sér fátæktina og varnarleysið, einkum hjá konum og börnum, á svæðum þar sem atvinnumöguleikar eru mjög litlir og konur eru lægra settar í samfélaginu. Það er þá oft þannig að erlendar konur verða oftar fórnarlömb mansals því að það er miklu erfiðara fyrir kynlífsþræl að sleppa burt í landi þar sem viðkomandi talar ekki tungumálið og í umhverfi sem hann þekkir ekki og á þar enga aðstandendur sem geta hjálpað honum. Svo er það annað sem eykur líkur á mansali og það eru stríðsátök. Hernaðarátök auka síðan eftirspurn eftir kynlífsþjónustu. Það er bara staðreynd. Konur eru sendar á staði þar sem hermenn eru, þeim til dægrastyttingar, því miður. Þær eru keyptar af hermönnum til skemmtunar.

Það er margt í þessu sem er afar þungt að lesa sér til um, að lesa reynslusögur og annað slíkt, það verður að segjast eins og er, það tekur á mann. Ég sé að tíminn er liðinn. Ég hefði gjarnan vilja halda áfram að fjalla um þetta, ef frú forseti vildi setja mig aftur á mælendaskrá.