151. löggjafarþing — 110. fundur,  9. júní 2021.

almenn hegningarlög.

550. mál
[16:49]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég verð að taka undir tillögu hv. þingmanna Miðflokksins sem mér er nú ekki oft ljúft að gera en kannski sérstaklega ljúft núna í ljósi aðstæðna. Það er ekki bara þannig að í einhver 150 ár hafi hlutirnir verið gerðir öðruvísi. Þeir eru gerðir öðruvísi núna og núna er þinghaldi ekki hagað með þeim formerkjum að það sé ekkert net. Við höfum ekki aðgang að mælendaskrá eða dagskrá — ég fann reyndar dagskrá frá 4. júní, sem er ekki uppfærð eins og kannski gefur að skilja, en við verðum að hafa þetta í lagi. Við verðum að geta verið hérna inni á skrifstofum og í þingflokksherbergjum og fylgst með í það minnsta hvaða mál eru í gangi, sem við sjáum ekki, hverjir eru á mælendaskrá, sem við sjáum ekki, hver er næstur á mælendaskrá, sem við sjáum ekki. Við eigum að geta unnið með þá innviði sem við höfum til okkar venjulegu starfa, fyrir utan það að ólíkt því sem kannski margir halda þá er þessi salur ekki vinnusvæði þingmanna almennt. Við svörum ekki tölvupósti hér almennt, þetta er ekki til þess. (Forseti hringir.) Þetta er rökræðusalurinn, salurinn sem við notum til rökræðu. Við eigum alveg að geta fylgst með þingsalnum þótt við séum að vinna inni á skrifstofum okkar eða í þingflokksherbergjum. Ég tek undir þá ósk að þingfundi verði frestað þar til þetta er komið í lag.