151. löggjafarþing — 110. fundur,  9. júní 2021.

tímabundnar endurgreiðslur til kvikmyndagerðar á Íslandi.

604. mál
[21:16]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Það fer að líða að lokum þessarar umræðu. Mér finnst ástæða til að geta þess þannig að það komi alveg skýrt fram að þessar breytingar á endurgreiðslukerfi kvikmynda eru gerðar með það að markmiði að bregðast við athugasemdum Ríkisendurskoðunar. Það er rakið í greinargerð með frumvarpinu að í október 2019 skilaði Ríkisendurskoðun skýrslu til Alþingis um endurgreiðslukerfið og framkvæmd þess. Þessi skýrsla var unnin að frumkvæði Ríkisendurskoðunar vegna ábendinga um hugsanlega misnotkun á endurgreiðslukerfi kvikmynda.

Í skýrslunni er fjallað um endurgreiðslukerfi laganna og í niðurstöðukafla hennar kemur m.a. fram að til þess að tryggja hagkvæma nýtingu þess ríkisfjár sem lagt er til endurgreiðslukerfisins sé mikilvægt að einungis þau verkefni sem falla að markmiðum laganna hljóti endurgreiðslu. Nefnt er að á undanförnum árum hafi vægi sjónvarpsefnis aukist innan endurgreiðslukerfisins og tilvikum fjölgað þar sem álitamál er hvort efnið falli að markmiðum laganna og reglugerðarinnar. Það er mat Ríkisendurskoðunar að afmarka þurfi endurgreiðsluhæfi verkefna með skýrari hætti og lágmarka hættu á að huglæg sjónarmið skapi fordæmi fyrir endurgreiðslur.

Í greinargerðinni segir einnig að Ríkisendurskoðun telji að stjórnvöld þurfi að hafa öflugt eftirlit með lögmætu kostnaðaruppgjöri þeirra verkefna sem sótt er um endurgreiðslu fyrir. Brýnt sé að ganga úr skugga um að einungis sá kostnaður sem staðið hafi verið skil á staðgreiðslu opinberra gjalda af teljist til endurgreiðslustofns svo misbrestur verði ekki á skattskilum aðila sem hafa komið að framleiðslu kvikmynda eða sjónvarpsefnis.

Tillögur Ríkisendurskoðunar til úrbóta eru í fjórum liðum, m.a. að skýra betur hvaða kostnaðarliðir falla undir endurgreiðslustofn í skilningi tekjuskattslaga. Rík ástæða sé til að skilyrða skattgreiðslur við rétt skattskil og gera kröfur um að kannað sé hvort opinber gjöld hafi verið greidd vegna þeirra reikninga sem mynda endurvinnslustofn kvikmynda og sjónvarpsefnis.

Í annan stað telur Ríkisendurskoðun að endurskoða þurfi núverandi stjórnskipulag endurgreiðslukerfis kvikmynda og efla samstarf við embætti ríkisskattstjóra um endurskoðun kostnaðaruppgjörs þeirra verkefna sem falla undir endurgreiðslukerfið.

Í þriðja lagi telur Ríkisendurskoðun að auka þurfi eftirlit og endurskoðun kostnaðaruppgjöra kvikmyndaverkefna og gera kröfu um að þau séu endurskoðuð með hliðsjón af lögum um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi og tekjuskattslögum.

Í fjórða lagi er rakið að Ríkisendurskoðun telji að tryggja þurfi að þeir fjármunir sem veittir séu til málaflokksins séu nýttir með sem hagkvæmustum hætti og að skilgreina þurfi betur hvers kyns kvikmynda- og sjónvarpsverkefni falli undir endurgreiðslukerfið og tryggja að þau séu í samræmi við markmið laganna um þetta efni.

Ég vil nota tækifærið og þakka Ríkisendurskoðun fyrir vel unnin störf í þessu. Það er auðvitað mjög mikilvægt að Alþingi bregðist við svo vel rökstuddum og gildum ábendingum frá Ríkisendurskoðun í jafn mikilvægu og þýðingarmiklu máli og hér um ræðir. Þetta er í eðli sínu mjög gott mál og þarft og nauðsynlegt að sá stuðningur sem ríkið vill veita til að styðja þessa atvinnugrein sé á bjargi byggður og um það eru þessar tillögur.