151. löggjafarþing — 110. fundur,  9. júní 2021.

tímabundnar endurgreiðslur til kvikmyndagerðar á Íslandi.

604. mál
[21:26]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Í ljósi þess að ég á skamman tíma eftir ætla ég fyrst og fremst að nota hann til að benda á jákvæð atriði við þetta mál, ekki það að ég hef svo sem bent á margt jákvætt við það í fyrri ræðu. En það eru tvö atriði sem ég vildi tilgreina sérstaklega og er ástæða til að hrósa mönnum fyrir að passa upp á það. Annars vegar, eins og menn þekkja, tíðkast það að í lok kvikmynda birtist listi yfir þá sem léku í myndinni og komu að gerð hennar, tæknimenn og aðra, en einnig kemur fram hverjir hafi framleitt, fjármagnað og stutt kvikmyndirnar. Yfirleitt hefur komið sérstaklega fram að íslenska ríkið hafi styrkt þær kvikmyndir sem hafa fengið skattafslátt með þeim hætti sem mælt er fyrir um í lögunum frá 1999 sem við erum nú að framlengja. En sérstaklega er getið um það í greinargerð að þetta hafi ekki verið algilt þrátt fyrir að í lögunum frá 1999 hafi verið tekið fram að framleiðendum beri skylda til að geta stuðningsins.

Hér vitna ég beint í greinargerðina, með leyfi forseta:

„Rannsóknir á vegum Ferðamálastofu hafa sýnt að stór hluti þeirra ferðamanna sem hingað koma fékk hugmynd sína að Íslandsferð eftir að hafa séð Ísland í erlendu eða innlendu kvikmynda- eða sjónvarpsefni. Það skiptir því miklu að þeir sem horfa á slíkt efni séu upplýstir um tengsl efnisins við Ísland. Slík kynning á endurgreiðslukerfinu hefur líka gildi með tilliti til þess að vekja athygli á kerfinu meðal framleiðenda og fjölga þannig verkefnum hérlendis.“

Ég tek heils hugar undir þetta, herra forseti. Þegar verið er að veita svona endurgreiðslu fjármagns til framleiðenda er mikilvægt að passa upp á að það sé nefnt sérstaklega, ekki hvað síst af þessum tveimur ástæðum, að menn átti sig á því hvernig landið kom við sögu og eins að aðrir áhugasamir framleiðendur átti sig á því að þessi möguleiki sé fyrir hendi til að viðhalda þeirri keðjuverkun sem ég nefndi í fyrri ræðu.

Annað sem ég vildi sérstaklega hrósa fyrir og getið er um í greinargerðinni er áhersla á að heimilt verði að nota kynningarefni úr kvikmyndunum til að kynna Ísland. Í greinargerðinni segir:

„Íslandsstofa hefur það hlutverk með höndum að kynna endurgreiðslukerfið fyrir erlendum framleiðendum og rekur í því skyni verkefnið Film in Iceland. Talið er mikilvægt að þeir framleiðendur sem njóta endurgreiðslna á framleiðslukostnaði veiti Íslandsstofu, henni að kostnaðarlausu, aðgang að kynningarefni sem tengist viðkomandi verkefnum svo að mögulegt sé að nýta það í markaðsvinnu, hvort sem það er til að laða til landsins fleiri kvikmynda- og sjónvarpsframleiðendur eða ferðamenn.“

Mér finnst þetta líka sjálfsagt mál og mjög æskilegt að passa upp á þetta.

Svo bætast samfélagsmiðlarnir í síauknum mæli við núna og hafa gríðarleg áhrif þegar fólk er að taka af sér myndir á vettvangi þar sem kvikmyndir hafa verið teknar upp.

Ég hefði viljað ræða aðeins áhrif á landsbyggðina og mikilvægi þessarar greinar fyrir atvinnulíf á landsbyggðinni enda er megnið af íslensku landslagi á landsbyggðinni, eins og gefur að skilja, en ég næ því ekki hér. Eins hefði verið gott að geta farið nánar yfir áhrif EES-samningsins á þetta mál en það verður að bíða betri tíma. Ég læt nægja að nefna að þó að í þessu felist ríkisstyrkir hefur tekist að halda þeim innan marka EES-samningsins og við mættum líta til þess að virkja samninginn betur á fleiri sviðum atvinnulífsins.