151. löggjafarþing — 110. fundur,  9. júní 2021.

Fjarskiptastofa.

506. mál
[22:10]
Horfa

Frsm. um.- og samgn. (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég flyt hér nefndarálit með breytingartillögu um frumvarp til laga um Fjarskiptastofu frá umhverfis- og samgöngunefnd. Nefndarálitið liggur fyrir á þskj. 1624 og er mál nr. 506. Hér erum við við 2. umr. um málið.

Nefndinni bárust umsagnir frá 11 aðilum og fékk hún til sín allmarga gesti til að fjalla um málið.

Með frumvarpinu er lagt til að samþykkt verði ný heildarlög um starfsemi Póst- og fjarskiptastofnunar og stofnuninni m.a. gefið nýtt heiti, Fjarskiptastofa. Markmið frumvarpsins er að bæta og einfalda regluverk á sviði fjarskipta. Lykilhlutverk stofnunarinnar varðandi eftirlit og framkvæmd fjarskiptamála helst óbreytt, en helstu breytingar og nýmæli frumvarpsins varða aukna áherslu á framfarir og nýsköpun og hvernig stofnunin geti fylgt eftir hraðri tækniþróun sem best og stutt við slíka þróun. Samhliða framlagningu frumvarpsins var lagt fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um póstþjónustu og Byggðastofnun sem felur í sér flutning eftirlits með póstþjónustu til Byggðastofnunar en það er mál nr. 534 og nefndarálit í því máli liggur líka fyrir frá umhverfis- og samgöngunefnd.

Ég ætla ekki að fara í gegnum nefndarálitið frá orði til orðs en koma aðeins inn á kaflana í því. Fyrst er fjallað um gagnaöflun Fjarskiptastofu. Gert er ráð fyrir skráningu gagna í gagnagrunn almennra fjarskiptaneta. Nefndin áréttar að sá gagnagrunnur gegnir mikilvægu hlutverki við stefnumótun og uppbyggingu í málaflokknum og er því mikilvægur en beinir því til Fjarskiptastofu að hafa samráð við fjarskiptafyrirtækin um með hvaða hætti þau afhenda gögn í grunninn og þar með talið á hvaða formi afhenda skuli upplýsingarnar. En það komu fram ábendingar um að þetta samráð um tilhögun gagnaöflunarinnar skipti máli.

Síðan er fjallað um kvartanir til Fjarskiptastofu og farið yfir að það sé eðlilegt að neytendur geti sent kvartanir á einn stað en ekki eru lagðar til neinar breytingar á frumvarpinu því að eins og fram kemur byggist fjarskiptalöggjöf á samevrópsku regluverki og því mikilvægt að ákvæði frumvarpsins er varða kvartanir samræmist reglum þeirrar tilskipunar sem þar er farið eftir. Staðan er sú að neytendur geta borið einkaréttarlegan ágreining sinn við fjarskiptafyrirtæki undir kærunefnd vöru- og þjónustukaupa eða Fjarskiptastofu. Og þannig verður það áfram.

Þá kem ég að breytingartillögu nefndarinnar. Fyrst er breytingartillagan sem varðar framkvæmd laga um rafræna auðkenningu og traustþjónustu fyrir rafræn viðskipti. Með lögum um breytingu á lögum um Neytendastofu og fleiri lögum var Póst- og fjarskiptastofnun falið að annast framkvæmd eftirlits samkvæmt lögum um rafræna auðkenningu og traustþjónustu fyrir rafræn viðskipti. Þetta er breyting sem gerð var fyrr á þessu ári. Í nefndaráliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar um 344. mál er umhverfis- og samgöngunefnd hvött til þess að huga að nýjum verkefnum stofnunarinnar við umfjöllun um fyrirliggjandi frumvarp. Með vísan til þessa leggur nefndin til breytingu þess efnis að meðal hlutverka Fjarskiptastofu í 2. gr. frumvarpsins verði tilgreint að hún fari með framkvæmd laga um rafræna auðkenningu og traustþjónustu fyrir rafræn viðskipti.

Til samræmis leggur nefndin til tvær breytingar á lögum um breytingu á lögum um Neytendastofu og fleiri lögum, nr. 18/2021, þannig að lögin endurspegli nýtt heiti stofnunarinnar.

Svo er fjallað um öryggi og almannavarnir. Í 8. gr. er fjallað um hlutverk Fjarskiptastofu þegar kemur að öryggi og almannavörnum. Í umsögn Póst- og fjarskiptastofnunar var bent á að stofnunin hefur á undanförnum árum ávallt verið kölluð til þegar upp hefur komið neyðarástand sem ógnað gæti öryggi fjarskiptainnviða eða þegar tryggja þarf örugg fjarskipti í slíku ástandi. Um þetta hlutverk stofnunarinnar hafi ekki verið fjallað í lögum. Ákvæði 8. gr. frumvarpsins sé mjög til bóta. Þó er lögð til breyting við það ákvæði.

Eins og reynslan hefur sýnt síðustu misserin er aðkoma stofnunarinnar nauðsynleg þegar brugðist er við neyðarástandi, t.d. vegna óveðurs eða annarra náttúruhamfara. Til að endurspegla betur hlutverk stofnunarinnar og aðkomu í þessum málum leggur nefndin til að við 2. mgr. 8. gr. bætist nýr málsliður þess efnis að Fjarskiptastofa skuli stuðla að öryggi og viðnámsþrótti fjarskiptainnviða og samhæfðum viðbrögðum við sérstakar aðstæður. Þá er lagt til að mikilvægi samstarfs Fjarskiptastofu og ríkislögreglustjóra, um framkvæmd viðbúnaðaræfinga og aðrar aðgerðir sem miða að því að stuðla að öryggi og viðnámsþrótti fjarskiptainnviða, verði áréttað í 10. mgr. 25. gr. frumvarpsins. Það er sjálfsagt að benda á að auðvitað er samstarf við alla þá aðila sem koma að öryggi og almannavörnum mjög mikilvægt varðandi þessi ákvæði, bæði samstarf í 25. gr. og framkvæmd 8. gr.

Næst er fjallað um gagnagrunn almennra fjarskiptaneta. Í 10. gr. frumvarpsins er kveðið á um að Fjarskiptastofa starfræki stafrænan gagnagrunn um almenn fjarskiptanet. Samkvæmt ákvæðinu skal skrá tilteknar upplýsingar í gagnagrunninn. Í 3. mgr. er Fjarskiptastofu veitt heimild til að hagnýta upplýsingarnar í starfsemi sinni, m.a. vegna greiningar á markaðsbresti vegna ríkisaðstoðar. Bent var á að slík greining getur m.a. lotið að fámennum stöðum og viðskiptatengingum einstakra heimila og þar kunni því að vera persónugreinanlegar upplýsingar að einhverju marki. Þá sé í 5. mgr. kveðið á um að heimilt sé að opna fyrir takmarkaðan aðgang almennings að gagnagrunninum, til að mynda um tengingar á mismunandi svæðum sundurliðað eftir staðföngum. Vegna þessa sé mikilvægt að bæta persónuverndarsjónarmiðum við þau atriði sem eru talin upp í ákvæðinu og geta takmarkað aðgengi að upplýsingum. Nefndin tekur einmitt undir þau sjónarmið og leggur til breytingu á 5. mgr. 10. gr. sem orðast svo: Þó skal takmarka aðgengi að upplýsingum ef það er nauðsynlegt í ljósi öryggis neta og áreiðanleika þeirra, þjóðaröryggis, lýðheilsu eða öryggis almennings, trúnaðarkvaða, réttmætra samkeppnishagsmuna, rekstrar- og viðskiptaleyndarmála — og persónuverndar bætist við þá setningu.

Að lokum er fjallað um úrskurðarnefnd fjarskiptamála. Í 20. gr. er kveðið á um að ákvarðanir Fjarskiptastofu sæti kæru til sérstakrar nefndar, úrskurðarnefndar fjarskiptamála. Hið sama eigi við um ákvarðanir stjórnvalda samkvæmt lögum um póstþjónustu. Þannig að nefndin fjallar, eins og hún hefur gert hingað til, bæði um póst- og fjarskiptamál. Nefndin er starfandi samkvæmt gildandi lögum um Póst- og fjarskiptastofnun undir heitinu úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála og er sjálfstæð og óháð í störfum sínum. Með vísan til þess að gert er ráð fyrir að nefndin muni áfram taka afstöðu í málum á sviði póstmála telur nefndin rétt að heiti nefndarinnar endurspegli það og verði úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála í stað þess að heita einungis úrskurðarnefnd fjarskiptamála eins og upphaflega var lagt til í frumvarpinu.

Þá leggur nefndin til nokkrar aðrar breytingar sem eru tæknilegs eðlis og er ekki ætlað að hafa efnisleg áhrif.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem nú hefur verið gerð grein fyrir.

Undir nefndarálitið rita Líneik Anna Sævarsdóttir framsögumaður og Bergþór Ólason, formaður nefndarinnar. Auk þeirra hv. þingmenn Ari Trausti Guðmundsson, Guðjón S. Brjánsson, Hanna Katrín Friðriksson, Jón Gunnarsson, Kolbeinn Óttarsson Proppé og Vilhjálmur Árnason, sem ritar undir álitið með heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis þar sem hann var fjarverandi við afgreiðslu málsins. Þá ritar Karl Gauti Hjaltason undir með fyrirvara, eins og raunar Bergþór Ólason. Þeir hyggjast gera grein fyrir því í ræðustól.

Þá hef ég gert grein fyrir þessu nefndaráliti og vil þakka nefndinni gott samstarf við vinnslu málsins og legg til að það verði samþykkt.