151. löggjafarþing — 111. fundur,  10. júní 2021.

fjáraukalög 2021.

818. mál
[15:51]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Án þess að ég hafi áform um að lengja umræðuna mikið þá langar mig að ræða örlítið við hv. þingmann um það atriði sem mér finnst mestu máli skipta í þessum fjárauka, þ.e. að í frumvarpinu er gert ráð fyrir 1.000 millj. kr. aukaframlagi til hjúkrunarheimilanna og að nefndin geri síðan tillögu um 300 milljónir að auki. Ef það er sett í samhengi við skýrslu Gylfa Magnússonar prófessors um að hallinn á hjúkrunarheimilunum á þriggja ára tímabili, að teknu tilliti til framlaga sveitarfélaganna, hafi verið 3,5 milljarðar, þ.e. svona u.þ.b. 1,2 milljarðar á ári, spyr ég hvort þingmanninum þyki þetta ekki skipta verulega miklu máli inn í þennan rekstur og hvort þarna sé þá ekki verið að koma til móts við heimilin að verulegu leyti. Eftir því sem kemur fram í nefndarálitinu er verið að hækka daggjaldagrunninn um ein 4% með þessu og 800 millj. kr. framlagi að auki sem snýr að leiðréttingu vegna launabreytinga og vaktafyrirkomulags. Mig langar aðeins að heyra skoðun hv. þingmanns á þessu. Þarna er meiri hluti nefndarinnar að gera umtalsverðar breytingar annars vegar og hins vegar er, í kjölfar skýrslunnar, horfst í augu við það í frumvarpinu að þarna þurfi að gera betur. Mig langar að heyra aðeins betur sjónarmið þingmannsins um þetta.