151. löggjafarþing — 111. fundur,  10. júní 2021.

fjáraukalög 2021.

818. mál
[15:55]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek alveg undir með hv. þingmanni, auðvitað þurfum við að hugsa hlutina heildstætt, þurfum að hugsa þetta lengra fram í tímann. En ég ítreka það sem ég sagði áðan, að þegar horft er til þessa rekstrarárs, sem þessi fjáraukalög gera sannarlega fyrst og fremst, þá er nánast upp á krónu halli þriggja ára tekinn. Að vísu var aðeins farið yfir meðaltalið, farið upp í 1.300 milljónir en meðaltalshallinn var eitthvað um 1.200. Ég vil leyfa mér að efast um að það sé almenna reglan í rekstri stofnana ríkisins að menn mæti hreinlega bara upp á punkt og prik með þessum hætti þeim tölum sem þar koma fram.

Það er svo aftur allt annað mál, og þar veit ég að við þingmaðurinn erum sammála, að við þurfum að fara að skoða stefnuna í málefnum eldra fólks með öðrum hætti en við höfum gert hingað til. Við þurfum að fara að horfa miklu meira til sjálfræðis fólks inni á hjúkrunarheimilum. Við þurfum að fara að horfa miklu meira til þátta eins og að líta á hjúkrunarheimilin sem heimili. Við þurfum að horfa til þjónustuþátta eins og til að mynda Eden-stefnunnar o.s.frv. En ég vil meina, og ég held að full ástæða sé til að segja það hér í ræðustól Alþingis, að þarna sé verið að mæta þessum beinu fjárhagslegu væntingum sem skýrslan bendir á að þurfi að leysa. En ég tek undir það með hv. þingmanni að til lengri tíma litið er þetta ekki lausn enda er það raunar tekið fram í nefndarálitinu. Þar þurfum við að halda áfram að bæta í og taka betur á og ég er sannfærður um að þessi mál munu koma upp þegar við förum að ræða kosningar í haust og að þar eigi stjórnmálaflokkarnir að skila því til kjósenda hvaða stefnu þeir muni hafa í þessum málum.