151. löggjafarþing — 111. fundur,  10. júní 2021.

fjáraukalög 2021.

818. mál
[17:45]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Við ræðum hér frumvarp til fjáraukalaga þar sem verið er að ræða að veita 14,6 milljarða kr. aukalega í hina ýmsu málaflokka. Það er farið yfir það í frumvarpinu hvaða málaflokkar þetta eru. Langmest af þessu er vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar sökum kórónuveirufaraldursins sem hér hefur geisað. Við í Miðflokknum höfum stutt þessar aðgerðir með ráðum og dáð og ég held að þær komi til með að milda það högg sem af þessu verður.

Höggið er mikið og við verðum töluverðan tíma, herra forseti, að jafna okkur á því áfalli sem varð vegna þessa faraldurs, sérstaklega fjárhagslega. Það eru tvær leiðir til í því. Önnur er sú leið sem vinstri flokkarnir hafa talað mikið fyrir, þ.e. að skattleggja okkur út úr vandanum, að ríkið stórauki skatta til þess að greiða niður þennan halla sem við erum búin að koma okkur í. Það sé ráð við vandanum. Ég vara sérstaklega við slíkri leið en sumir vinstri flokkanna hafa beinlínis talað fyrir þeirri leið, að hún myndi leysa allan vanda, og jafnvel talað fyrir því að það myndi líka leysa vanda verði ráðnir fleiri starfsmenn hjá hinu opinbera, að það myndi draga úr atvinnuleysinu.

Á þessum peningi eru auðvitað tvær hliðar, herra forseti, vegna þess að þjóðartekjurnar, það sem við höfum til að bíta og brenna, verða ekki til úr engu. Framleiðnin á sér ekki stað í ráðuneytum eða stofnunum ríkisins nema að litlu leyti. Framleiðnin á sér stað í atvinnulífinu, hinu frjálsa atvinnulífi, þ.e. fiskveiðum og iðnaði, landbúnaði og sölu þjónustu og útflutningi. Þar á framleiðslan sér stað. Það er mikil einföldun hjá vinstri flokkunum að halda að með því að leggja auknar álögur á atvinnulífið getum við unnið okkur út úr vandanum. Það mun einungis verða til þess að fyrirtæki verða verr í stakk búin til að ráða fólk. Það vinnur ekki á atvinnuleysinu og fyrirtækin verða verr í stakk búin til að greiða skatta fyrir vikið og það minnkar tekjur ríkissjóðs. Það rekst hvað á annars horn, þetta úrræði vinstri manna, og ég mæli ekki fyrir því.

Það sem Miðflokkurinn vill gera í þessum efnum er að leyfa atvinnulífinu að vaxa og að við vöxum þannig út úr vandanum. Gróska í atvinnulífi á mörgum sviðum veldur því að skatttekjur aukast sjálfkrafa og jafnframt verðum við, að okkar mati, að stöðva útþenslu ríkisvaldsins sem ég held að sé orðið allt of stórt, allt of mikið bákn miðað við ástandið í hagkerfinu í dag. Þetta er auðvitað eilíft verkefni og alls ekki létt. En ég held að með aga og góðri greiningu sé hægt að vinna talsvert á því að minnka báknið og hemja útgjöld með aðhaldssemi og aga.

Af hverju segi ég aga? Vegna þess, herra forseti, að stundum finnst mér eins og forstöðumenn í ríkiskerfinu lifi einhvers konar sjálfstæðu lífi og eigi einhvers konar sérstaka kröfu á því að til þeirra streymi óheft fjármagn úr ríkissjóði ár hvert og helst með talsverðri aukningu milli ára, alveg sama hvaða verkefni eru fyrir hendi eða hvernig ástandið að öðru leyti er. Þetta kalla ég aga. Þetta þarf aga, kerfi þarf aga og halda mönnum við verkin. Ég held að það sé mjög mikilvægt að menn haldi sig við verkin og komist ekki upp með það að vera með grát og gnístran tanna alla tíð við fjárveitingavaldið, að sá sem frekastur er fái aukningu eða minni niðurskurð en næsti maður. Þetta er stór vandi, held ég, í opinbera kerfinu. Ef okkur tekst að sýna aga í ríkisrekstrinum held ég að spara megi margar krónurnar, landsmönnum öllum til hagsbóta og veita það fé frekar í nauðsynlegri og arðbærari verkefni, eins og er til að mynda verið að gera hér. Hér er veittur 1 milljarður kr. samkvæmt fjáraukalögum til hjúkrunarheimila.

Dugir það, herra forseti? Ekki að þeirra eigin sögn. Hjúkrunarheimilin hafa verið rekin með viðvarandi halla í fjölmörg ár. Þar er mikill uppsafnaður vandi sem þessi 1 milljarður mun ekki dekka, ef ég má orða það þannig. Hingað til hafa sveitarfélögin, sem reka mörg þessara hjúkrunarheimila, hlaupið undir bagga með rekstri hjúkrunarheimila á sínu svæði og þetta er farið að sliga mörg sveitarfélög eins og alkunna er. Eftir fréttum að dæma hefur Akureyrarbær á síðustu átta árum greitt u.þ.b. 2 milljarða í rekstur hjúkrunarheimila á sínu svæði. Það sér hver maður að 1 milljarður hér sem veittur er í daggjöld hjúkrunarheimila fer ekki langt með að borga niður þann viðvarandi vanda sem þarna er við að glíma.

Við gerum sífellt meiri kröfur og ríkið gerir sífellt meiri kröfur til umönnunar og aðbúnaðar eldra fólks og er það vel, herra forseti. En þegar á að verðmeta þjónustuna sem rekstraraðilarnir sinna er ríkið einnig hinum megin við borðið, gerir kröfurnar, verðmetur þjónustuna og greiðir og rekstraraðilar eiga sér engrar undankomu auðið. Þeir verða bara að gjöra svo vel að halda áfram að reka þetta með því þjónustustigi sem krafist er, með þeim gæðum og húsnæði sem krafist er og reka heimilið þannig með tapi. Hvert eiga þau að leita og hvað eiga þau að gera? Þau eru algjörlega föst í sjálfheldu í sínum rekstri, enda hefur komið á daginn að fjölmörg sveitarfélög um land allt hafa ákveðið að skila ríkinu þessum rekstri. Mun ríkið vera betur í stakk búið með að reka þessi heimili en þessir aðilar, einkaaðilar eða sveitarfélög eða sjálfseignarstofnanir sem reka mörg þessara heimila? Ég efast um það, herra forseti. Ég held að vegferð sem endar á þennan hátt sé alls ekki góð niðurstaða fyrir ríkisvaldið. Við erum á leið inn í öngstræti. Ríkisstjórnin stjórnar líka fjölda hjúkrunarrýma sem í boði eru og mörg hjúkrunarheimili kvarta einmitt yfir því að geta ekki nýtt öll sín rými. Það eru kannski laus rými en sjúkratryggingar ákveða tölur sem í boði eru og þrátt fyrir að biðlistarnir séu langir er ekki tekið inn í þessi rými vegna þess að fjárveitingavaldið segir: Nei, við ætlum ekki að borga meira. Við eigum ekki meiri pening fyrir þessu. Ég held að við séum komin í ákveðna sjálfheldu í þessum efnum í málefnum hjúkrunarheimila, málefnum gamla fólksins okkar.

Herra forseti. Það er líka alvarlegt að fjöldi eldra fólks á Íslandi eykst með ári hverju og til að mynda mun fjöldi þeirra sem eru yfir áttrætt, það eru fjölmennasti hópur þeirra sem dvelja á hjúkrunarheimilum, tvöfaldast á næstu 14 árum. Hvað tekur langan tíma að byggja þau rými sem þarf innan þess tíma, tvöföldun?

Við erum því miður, herra forseti, á mjög slæmri leið hvað þetta varðar. Ég hef áhyggjur af þessu. Ég hef heimsótt fjölmörg hjúkrunarheimili um allt land og séð hvað fólk er metnaðarfullt í að sinna dvalargestum og heimilisfólki á þessum heimilum og hvað aðbúnaður er allur til fyrirmyndar og umönnun. En það er þannig komið fyrir hjúkrunarheimilum í rekstrinum að ef tveir sjúklingar sækja um laust rými þá getur hjúkrunarheimilið valið hvorn það tekur inn. Þá kemur að því: Er sjúklingurinn þungur, þ.e. þarf hann mikla umönnun? Er lyfjakostnaður mikill með þessum sjúklingi? Þá velja þeir auðvitað léttari sjúklinginn þegar þeir hafa þetta val. Þeir hafa reyndar bara val um tvo einstaklinga. Mér er sagt að þá hætti fólki að sjálfsögðu til að velja þann sem veldur ekki enn þá meiri rekstrarhalla hjá viðkomandi heimili sem er kannski lítið heimili með 30, 40 heimilismenn. Þetta er niðurstaðan. Það er verið að velja, herra forseti, á milli gamla fólksins af því að menn hafa ekki efni á því að sinna þyngri sjúklingum.

Þetta er alvarlegt. Ég myndi halda að þetta væri mjög alvarlegt og sérstaklega alvarlegt fyrir sjúklinga sem þarna leita umönnunar. Þetta á ekki að eiga sér stað í íslensku samfélagi. Vandinn eykst bara, eins og ég hef nefnt hér, ég hef talað töluvert um að það vanti aukið fjármagn til hjúkrunarheimila. Í fjáraukalagafrumvarpinu er veittur 1 milljarður til að stoppa upp í þetta gat en tap hjúkrunarheimila á síðustu tveimur árum, 2017–2019, var 3,5 milljarðar. Í því samhengi er þetta ekki há upphæð, herra forseti, en sveitarfélögin eru látin borga brúsann og þau eru komin á harða flótta.

Ef lesið er áfram í fjáraukalagafrumvarpinu kemur fram með afkomuhorfur að fjárlögin voru samþykkt með 326 milljarða kr. halla. Svo er verið að tala um ráðstafanirnar, að skatttekjur hafi aukist vegna skattlagningar séreignarsparnaðar. Það er auðvitað sjónarmið út af fyrir sig, herra forseti, að við séum að telja það til tekna ríkissjóðs, að skatttekjur aukist vegna úttektar á séreignarsparnaði. Þetta er í raun og veru, herra forseti, peningar, fjármunir, sparnaður fólksins sjálfs, það er fólkið sjálft sem hefur lagt þetta til hliðar. Bókhaldslega er vissulega rétt að telja þetta sem tekjur. Þarna er ríkisstjórnin að hampa því að skatttekjurnar hafi hækkað eitthvað umfram áætlanir. En þetta eru peningar sem fólkið hafði sparað sér. Auðvitað má fagna því líka að skatttekjur aukist á þennan hátt þótt þarna sé um sparnað fólksins sjálfs ræða.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir auknum útgjöldum til Rauða krossins og Landsbjargar. Mér sýnist í greinargerð með frumvarpinu að hér sé fyrst og fremst um að ræða tap, kannski vegna faraldursins, hjá þessum aðilum, sérstaklega út af því að tekjur lækkuðu hjá þeim vegna Íslandsspila. Ég reikna með að Íslandsspil séu þá einhvers konar spilakassar og tekjurnar hafi lækkað í faraldrinum þegar aðsókn að þessum spilakössum varð mun minni en áður. Nú hefur verið mikil umræða um spilakassa og kannski er hluta af skýringunni þar að finna því að það hefur mætt mikilli andúð í samfélaginu að hjálparsamtök eins og Rauði krossinn og Landsbjörg afli tekna á þennan hátt, afli tekna í raun og veru hjá fíklum. Stór hluti þess fólks sem stundar spilasali, ekki allir að sjálfsögðu, en stór hluti eru svokallaðar spilafíklar sem geta ekki ráðið við þessa fíkn sína og eru í mikilli eymd og þetta veldur mikilli sorg meðal þeirra og fjölskyldna þeirra og höfum við séð frásagnir af því undanfarna mánuði. Þarna hafa tekjurnar lækkað og ríkissjóður hleypur undir bagga og leggur til aukið fjármagn, 100 millj. kr. til hvors fyrir sig.

Síðan er gert ráð fyrir 120 milljónum til Strætó vegna tekjutaps. Þetta leiðir hugann að því, herra forseti, að þetta eru smáaurar, 120 millj. kr., til að koma á móts við tekjutap. Þetta eru smáaurar í því samhengi sem við förum að ræða hér, kannski í þessum sal, innan ekki svo langs tíma, þau útgjöld sem við þurfum að standa straum af vegna sáttmálans sem gerður var í höfuðborginni vegna borgarlínu. Það verður eitthvað, herra forseti, þegar við förum að takast á við þær upphæðir. Ég er svolítið hræddur um að við höfum ekki séð fyrir endann á því verkefni sem hægt er að leysa með miklu ódýrari hætti en með þeim ægibyggingum sem í kringum þessa borgarlínu eiga að rísa og sem mun á helstu stofnæðum einungis teppa aðra umferð. En það er nú tilgangurinn. Tilgangurinn er kannski líka sá að koma í veg fyrir að fólk komist leiðar sinnar. Það er kannski skemmtilegi tilgangurinn í þessu borgarlínuævintýri.

Ég ætlaði að tala um ýmislegt annað. Ég ætlaði t.d. að tala um lögregluna, ég get talað lengi um hana. Ég ætlaði að tala um samgöngur, herra forseti. Ég hef smátíma eftir til að tala um samgönguframkvæmdir. Við höfum talað fyrir því að vaða í þessar framkvæmdir og stutt ríkisstjórnina með ráðum og dáð með því að leggja meira fé í samgönguframkvæmdir. Það er atvinnuskapandi, það er fjárfesting og það hefur áhrif til hagsbóta fyrir samfélagið til langrar framtíðar. En hver er raunin? Samkvæmt úttekt Hagstofunnar hafa opinberar framkvæmdir dregist saman, bæði árið 2019 og árið 2020, um 10%, rúm 10% seinna árið. En ég verð að biðja um aðra ræðu. Ég ætla að klára þetta. Þetta er áhugavert.