151. löggjafarþing — 111. fundur,  10. júní 2021.

fjáraukalög 2021.

818. mál
[18:11]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég var í minni síðustu ræðu að ræða aðeins um Landspítalann og margþættan fjárhagsvanda hans vegna þess að þetta tengist allt þegar kemur að hjúkrunarheimilunum sem eru undir í þessu fjáraukalagafrumvarpi. Hér er ríkisstjórnin loksins að bregðast við ákalli um að bæta rekstrarvanda hjúkrunarheimilanna með því að setja 1 milljarð kr. í rekstur þeirra tímabundið og stofna svo 300 millj. kr. sjóð sem hægt er að sækja um í. En þetta dugir hvergi nærri til og, eins og ég segi, er tímabundið. Þess vegna er ljóst að ríkisstjórnin treystir sér ekki til að taka á vandanum til frambúðar. Það er náttúrlega mjög slæmt vegna þess að það var jú eitt af málefnum ríkisstjórnarsáttmálans, ríkisstjórnar Framsóknarflokks, Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokksins, að mæta rekstrarvanda hjúkrunarheimila en svo núna, á síðustu metrunum fyrir kosningar, er verið að reyna að sýna lit í þessum efnum sem dugir hvergi nærri til.

Þetta hefur m.a. með svokallaðan fráflæðisvanda Landspítalans að gera. Við erum þar með einstaklinga í mjög dýrum úrræðum sem komast ekki í þá þjónustu sem hentar þeim, eins og hjá hjúkrunarheimilunum. Ég verð að segja að á þeim tíma sem hefur liðið frá því að þessi ríkisstjórn tók við virðist bara hafa verið takmarkaður samningsvilji af hálfu ríkisvaldsins þegar kemur að því að semja um rekstur hjúkrunarheimilanna við þá rekstraraðila sem þar koma að, t.d. fyrirtæki í velferðarþjónustu. En við verðum líka að hafa í huga þegar við erum að ræða um þennan fráflæðisvanda og þá einstaklinga, sem hafa leitað á spítalann til að fara í einhvers konar aðgerðir eða leita lausna á sínum málum, að að því loknu þurfa þeir náttúrlega að komast í einhver úrræði og þau liggja bara ekki á lausu. Það er ekki nóg að byggja hjúkrunarheimilin, það verður að hafa fé til að reka þau.

Ég er þeirrar skoðunar að ríkisstjórnin hafi ekki sýnt nægilegan áhuga á því að reyna að leysa þetta mál. Við verðum að hafa það í huga að Landspítalinn er fyrst og fremst bráðasjúkrahús. Það er því eðli þjónustunnar, þegar kemur að fjárveitingum til spítalans og þetta hefur verið margrætt í fjárlaganefnd, að þjónustan er ófyrirséð. Þá getur það hentar illa að vera á alveg föstum fjárlögum. Við vitum það t.d. að bráðamóttaka lokar ekki þegar fjárveitingin er búin. Það þarf meiri sveigjanleika. Álagið á heilbrigðiskerfið mun aukast jafnt og þétt næstu ár og áratugi með hækkandi lífaldri þjóðarinnar. Það sama á náttúrlega við um álagið á hjúkrunarheimilunum. Ef við ætlum að tryggja framúrskarandi heilbrigðisþjónustu fyrir alla þá sem þurfa á henni að halda á komandi árum þá þarf heilbrigðiskerfið að vera mun skilvirkara. Það lýsir óskilvirkninni og vanda kerfisins þegar sjúklingar eru sendir til útlanda í aðgerðir sem kosta þrefalt meira en þær myndu kosta á Íslandi. Þetta er náttúrlega ákaflega dapurlegt og með ólíkindum að það skuli viðgangast að fara svona með opinbert fé. Svo ég tali nú ekki um þá einstaklinga sem þjást og bíða og væri hægt að gera aðgerðir á hér heima sem væru mun ódýrari en erlendis.

Það er líka í þessu, herra forseti, að ríkisvaldið getur ekki bent alltaf á yfirstjórn Landspítalans og yfirstjórn Landspítalans bent á ríkisvaldið, ríkið. Þjóðin er að eldast, það þýðir aukið álag á kerfið og aldraðir, 80 ára og eldri, þurfa mest á þjónustunni að halda. Auk þess hefur ný heilbrigðistækni kallað á aukinn kostnað. Stjórnvöld verða að horfast í augu við vandann og tryggja langtímafjármögnun mikilvægustu heilbrigðisstofnunar landsins og það sama gildir um grunnstoðina í heilbrigðiskerfinu, hjúkrunarheimilin.