151. löggjafarþing — 111. fundur,  10. júní 2021.

fjáraukalög 2021.

818. mál
[18:27]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Óumdeilt er að kjör þeirra í hópi aldraðra sem minnst hafa milli handanna eru í engu samræmi við almenn lífskjör í landinu. Þeir sem engar aðrar tekjur hafa en lífeyri almannatrygginga eru verst settir. Upphæð lífeyris getur dregist jafnt og þétt aftur úr launum og í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að styrkja þurfi sérstaklega stöðu þeirra sem höllum fæti standa. Í þeim hópi eru eldri borgarar sem hafa takmörkuð eða engin réttindi úr lífeyrissjóðum og stunda ekki launaða vinnu. Þeir sem eru þannig settir þurfa nær eingöngu að reiða sig á ellilífeyri almannatrygginga og eru margir hverjir úr þeim hópi á almennum leigumarkaði og jafnvel skuldsettir. Í þessum hópi eru einnig þeir sem hafa ekki áunnið sér full réttindi til almannatrygginga vegna búsetu erlendis, t.d. innflytjendur. Þeim fjölgar í hópi eldri borgara sem hafa áhyggjur af fjárhag sínum, eru rúm 30%. Það kemur m.a. fram í könnun sem Reykjavíkurborg, velferðarráðuneytið og Landssamband eldri borgara lét gera fyrir ekki svo löngu.

Félag eldri borgara hefur sett fram vandaðar tillögur um hvernig bæta megi kjör þeirra verst settu sem tilheyra þessum hópi. Fyrir þær tillögur ber að þakka. Tillögurnar voru kynntar í fjárlagavinnu nefndarinnar fyrir nokkru. Stjórnarmeirihlutinn hefur því haft góðan tíma til að bregðast við þeim. Samkvæmt tölum frá OECD rennur lægra hlutfall af þjóðarframleiðslu og launum á Íslandi til greiðslu ellilífeyris en í löndum eins og Bretlandi, Hollandi, Danmörku og Svíþjóð. Íslendingar fara almennt síðar á lífeyri en íbúar annarra landa og munar hve mikið atvinnuþátttaka aldraðra er meiri og lengri á Íslandi en í hinum löndunum. Atvinnuþátttaka 65–69 ára er rúm 50% hér á landi en í sama aldurshópi í Svíþjóð er atvinnuþátttaka einungis 20%. Samanburður við áðurnefnd lönd sýnir að Ísland sker sig úr hvað virkan lífeyristökualdur varðar. Íslendingar hefja að jafnaði töku lífeyris einu til tveimur árum eftir að opinberum lífeyristökualdri er náð en í hinum löndunum fjórum fer fólk að jafnaði á lífeyri nokkru áður en opinberum aldurstakmörkunum er náð. Íslendingar taka því að jafnaði lífeyri í mun færri ár en tíðkast í hinum löndunum. Útgreiðsla úr báðum hlutum lífeyriskerfisins hefst því að jafnaði síðar hér á landi. Meðalaldur íslensku þjóðarinnar er lægri og því er lífeyrisbyrði opinbera kerfisins enn mjög lág í samanburði við önnur lönd. Þetta undirstrikar það að stjórnvöld hafa ráðrúm til þess að gera vel við eldri borgara. Þetta er sú kynslóð sem við eigum það mest að þakka að hér ríkir almenn velferð, kynslóð sem braust úr viðjum fátæktar með vinnusemi og dugnaði, kynslóð sem í dag biður einungis um réttlæti og að fá að lifa við mannsæmandi kjör.

Í tíð ríkisstjórnarinnar hefur stöðugt dregið í sundur með lágmarkslaunum og lífeyri almannatrygginga til aldraðra eins og sýnt hefur verið fram á með óyggjandi hætti. Með mörgum umsögnum hefur verið sýnt að samkvæmt 69. gr. laga um almannatryggingar ber að taka mið af launaþróun við ákvörðun um upphæðir almannatrygginga. Á undanförnum árum hefur ákvörðunin hverju sinni byggst á spá í fjárlagafrumvarpi um strípaða meðaltalshækkun samkvæmt kjarasamningum en sú aðferðafræði hefur leitt til þess að á síðastliðnum tíu árum hefur óskertur ellilífeyrir farið úr því að vera 91,5% af lágmarkslaunum í 75%. Uppsafnaður hlutfallslegur halli þessara ára er orðinn 18%.