151. löggjafarþing — 111. fundur,  10. júní 2021.

fjáraukalög 2021.

818. mál
[18:53]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Hæstv. forseti. Ég biðst afsökunar á þessari töf. Fjáraukalögin eru þess eðlis að þau eru væntanlega hugsuð til að bæta við það sem út af hefur staðið eða vantað. Vitanlega eru ákveðnar áherslur sem koma fram í því, því að eflaust má gera ráð fyrir að víða vanti fjármuni í okkar kerfi, ef það má orða það þannig. Hins vegar er ljóst að það er alveg hægt að hafa nokkuð sterkar skoðanir á því hvort nóg er gert og á réttum stöðum í þessu fjáraukalagafrumvarpi.

Það hefur furðað mig aðeins, og reyndar fleiri, að ríkisvaldið sé með einhverjum sérstökum hætti að taka að sér rekstur Strætó bs. sem sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu reka. Og það má velta því fyrir sér hvort ekki sé ástæða til að bæta þá öðrum sveitarfélögum upp eitthvað af því tekjutapi sem þau hafa orðið fyrir, þeim sem ekki eru í almenningssamgöngum. Ég vil þó segja að almenningssamgöngur eru vitanlega mjög mikilvægar. En það sem ég óttast er að þetta gefi tóninn um rekstur á stærra fyrirbæri sem unnið er að leynt og ljóst, sem er borgarlína. Þó að einhverjir flokkar í stjórnarmeirihlutanum kunni að þykjast hafa efasemdir um það þá er vitanlega öllum orðið ljóst að það er annað uppi á teningnum í raun þar sem menn leggja sig í líma við að tryggja fjármagn í borgarlínu og halda áfram með það.

Það sem er sorglegast við það er kannski að það er enginn vilji, virðist vera, til að hlusta á allar þær fjölmörgu ábendingar sem aðrir sérfræðingar en þeir sem berjast fyrir þessu verkefni hafa komið með um aðrar lausnir, ódýrari lausnir. Það sem er líka áhugavert, svo ég noti það orð bara, er að því hefur ekki verið neitað með neinum afgerandi hætti — fyrir utan þær breytingar sem þingmenn Miðflokksins náðu fram þegar var verið að stíga skref í þessu borgarlínubixi öllu saman hér í þinginu, að takmarka áhættu ríkisins af því að tengjast þessu verkefni.

Hér fá Landsbjörg og Rauði krossinn 200 milljónir vegna tekjutaps og fagna ég því. Það eru mikilvæg samtök sem gegna mikilvægu hlutverki. Það verður að segjast eins og er að okkar frábæru Landsbjargarfélagar og -menn hafa sýnt það undanfarin ár, oftar en ekki, hversu öflug sjálfboðaliðasamtök það eru og ber okkur að þakka fyrir það, það er eftir því tekið víða um heim.

Ég ætla aðeins að fara ofan í lið sem kallast afkomuhorfur 2021. Hér er komið ákveðið endurmat sem gerir ráð fyrir halla á fjárlögum upp á 328 milljarða, 10,5% af vergri landsframleiðslu. Það eru stórar tölur og verður ákveðið átak að ná því til baka öllu saman. Sem betur fer var búið að búa vel í haginn með aðgerðum ríkisstjórnar hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar á árunum 2013–2016 með því að taka í rauninni á hrægömmunum og bankabixinu öllu saman sem hér var í gangi þá. Það er eitthvað sem skiptir máli í dag þegar við búum svo vel að geta í rauninni brugðist með þeim hætti sem við gátum þegar þetta óveður skall á okkur.

En það sem er kannski ekki beint til umræðu hér en er mjög spennandi er hvað tekur við í haust. Hvernig verða fjárlög í haust, hæstv. forseti? Það er svolítið forvitnilegt að vita hvort ríkisstjórnin sem nú situr ætlar ekki að sýna okkur eitthvað af framtíðarsýn sinni því að hún virðist hafa einbeittan vilja til að sitja áfram. Það er eitthvað sem kemur m.a. fram í nefndaráliti um frumvarp um hálendisþjóðgarð. Menn binda sig þar til að halda áfram með það verkefni. Því hljótum við að ætlast til þess að við sjáum líka fram á fjárlagafrumvarp á réttum tíma þegar að því kemur.

Meiri hlutinn fjallar líka eðlilega um áherslumál sín. Hér er langur kafli í nefndarálitinu um hjúkrunarheimili og er nú kominn tími til að svarað sé því kalli sem þar hefur heyrst varðandi vöntun á fé. Það er ekki eins og þeir sem reka hjúkrunarheimili geri það út frá öðrum forsendum en að taka að sér að sjá um okkar aldraða og veika fólk. Það er eitthvað sem við verðum að sjálfsögðu að tryggja að geti gengið án þess að það sé truflað. Þess vegna held ég að það sé mjög mikilvægt að menn geri sér grein fyrir því að það er lykilatriði við upphaf næsta kjörtímabils, í næstu fjárlögum, að tryggja að hjúkrunarheimilin fái næga fjármuni. Auðvitað vitum við að það verður ekki gert með núverandi ríkisstjórn eða núverandi heilbrigðisráðherra sem virðist hafa allt á hornum sér þegar kemur að einhverju sem er ekki ríkisrekstur í heilbrigðiskerfinu. Það er vitanlega sorglegt því að þessi tvö kerfi eða tveir aðilar eiga og geta talað mjög vel saman þegar við erum að hugsa um íbúa landsins sem þurfa á þeirri þjónustu á halda sem heilbrigðisþjónustan er. Þar af leiðandi held ég að við eigum að horfa til þess að stórauka fé þar sem þörf er á.