151. löggjafarþing — 111. fundur,  10. júní 2021.

ávana- og fíkniefni.

644. mál
[19:11]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Ég kem hér upp til að fagna þessu flotta máli og langar kannski til þess að bæta við að mér finnst synd að við höfum ekki náð að breyta þessu máli þannig að við gætum tryggt að íslenskir framleiðendur gætu framleitt og markaðssett vörur sem innihalda CBD. Það var ekki hægt að koma þeirri breytingartillögu fyrir í þessu máli en við fengum þær upplýsingar að starfshópur myndi hefja störf um leið og þetta mál yrði samþykkt sem fær það hlutverk að skoða það. Hópurinn á að skila frá sér í desember á þessu ári og mig langaði bara til þess að fagna því að sú vinna hafi farið í gang þótt ég hefði viljað fá niðurstöðu mun fyrr. Vonandi kemur eitthvert gott frumvarp út úr þeirri vinnu sem mun bæta þessa stöðu þannig að við jöfnum stöðu íslenskra framleiðenda gagnvart erlendum þar sem við erum í dag að flytja inn mikið af vörum sem innihalda CBD erlendis frá. Eins og staðan er núna geta íslenskir bændur ekki framleitt svipaðar vörur hér heima og vonandi bætum við það bara mjög fljótt.