151. löggjafarþing — 112. fundur,  11. júní 2021.

dagskrá næsta fundar.

[10:42]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Sú staða sem komin er upp með þetta mál er í raun alveg með ólíkindum. Við þingflokksformenn sitjum nú og reynum að semja um þinglokin. Ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir eru búnir að taka af því borði mörg mál sem ég hefði gjarnan viljað að við tækjum hér til umræðu. En í ljósi þess að við erum að vinna saman og reyna að loka þinginu og kjörtímabilinu þá er ég ekki hér með dagskrártillögu um að koma þeim mikilvægu málum á dagskrá. Ef það mál sem við erum að ræða hér um strandveiðar hefði verið eitt af forgangsmálum stjórnarflokkanna við samningaborðið þá hefði ég sannarlega fagnað því og greitt því atkvæði. Ef það væri hér á dagskrá væri ég sammála því. En þessi atburðarás, þetta leikrit sem búið er að setja upp, bæði af hálfu formanns atvinnuveganefndar og hv. þm. Helga Hrafns Gunnarssonar — ég get ekki tekið þátt í því eða við í Samfylkingunni og við munum sitja hjá við þessa afgreiðslu.