151. löggjafarþing — 112. fundur,  11. júní 2021.

Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála.

356. mál
[11:19]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Þetta er ánægjulegur dagur nú þegar við höfum samþykkt frumvarp um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna sem leggur þær skyldur á allar stofnanir sem þjónusta börn að bjóða börnum og foreldrum upp á samþættingu þjónustunnar. Eins er með þetta frumvarp sem er mjög mikilvægur liður í framförum í málefnum barna og það styð ég.

Mig langar að nota tækifærið og þakka öllum þeim sem hafa komið að þessari vinnu fyrir samstarfið. Eins og fram hefur komið hér var það virkilega gott og ánægjulegt. En mig langar líka að árétta að vel er búið um persónuvernd í þessum lögum og öll upplýsingaöflun sem nú fer fram hjá stofnunum byggist á heimild í lögum, hvort sem það er Mentor eða Heilsuvera eða eitthvað allt annað. Þá vil ég árétta að gagnagrunnur til stuðnings samþættingu er ekki á nokkurn hátt forsenda samþættingar (Forseti hringir.) en mikilvægur stuðningur við hana og auðvitað þarf að fylgja persónuvernd við uppbyggingu hans. Takk fyrir.