151. löggjafarþing — 112. fundur,  11. júní 2021.

fasteignalán til neytenda.

791. mál
[13:18]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Við erum að ræða hér fasteignalán til neytenda sem er að mestum hluta fínt mál, en það eru þó nokkrir ágallar á því sem hægt er að sjá þegar maður rennir yfir lagatextann sjálfan. Þetta er frumvarp sem er augljóslega samið í fjármála- og efnahagsráðuneytinu og það er verið að leggja til breytingar á VII. kafla laga um fasteignalán til neytenda sem fjallar þá um heimild til Seðlabanka Íslands til að setja reglur um beitingu þjóðhagsvarúðartækja eins og það er kallað. Það er jafnframt lagt til að fasteignalán sem eru veitt í tengslum við hlutdeildarlán verði ekki tekin með í þetta mál hér og það segir sig sjálft.

Það er þannig þegar maður ræðir um tilefni og nauðsyn á þessum lögum að það er heimild til að setja reglur sem takmarka heildarfjárhæðir fasteignalána eða greiðslubyrði þeirra í hlutfalli við tekjur neytanda, sem bættist við frumvarpið þegar það varð að lögum 2016. Í upphaflegu frumvarpi var lagt til að aðeins yrði lögfest ákvæði um að fjármálaeftirlitinu væri heimilt, að fengnum tilmælum frá fjármálastöðugleikaráði, að setja reglur um þetta hámark.

Í umsögn fjármálaeftirlitsins eru nokkur atriði og mig langar að taka sérstaklega til eitt atriði. Í umsögninni kom fram að mismunandi stjórntæki hefðu áhrif á mismunandi hópa á mismunandi hátt og takmörk á veðsetningarhlutfalli væri ekki alltaf áhrifaríkasta leiðin til að vinna gegn þeim útlánasveiflum sem koma alltaf upp annað slagið. Fjármálaeftirlitið lagði einnig til að takmarka heildarfjárhæð fasteignalána og greiðslubyrði í hlutfalli við tekjur neytenda. Þetta er dálítið merkilegur hlutur, sérstaklega fyrir okkur sem höfum hlýtt á ræður sem hefur verið farið með hér fyrr, að það er stór hópur fólks sem er á leigumarkaði og þessi sami hópur er að borga gríðarlega háa leigu og nýtir nánast allar ráðstöfunartekjur sínar til að standa undir leiguhúsnæðinu. Á sama tíma er því ekki veitt greiðslumat vegna þess að það er á einhvern hátt sett þak á þá lánsfjárhæð sem fólk getur fengið. Þarna myndast ákveðin skekkja sem gerir það að verkum að fólk festist í fátæktargildru.

Við vitum um nokkuð mörg dæmi þess, held ég, alla vega hef ég orðið vör við það, að starfsfólk banka hefur hreinlega lagfært greiðslumatið út frá þeim upplýsingum sem eru gefnar, fólk hefur kannski verið í leighúsnæði til fjölda ára og alltaf staðið við sínar greiðslur. Ég get ekki séð að þetta mál sem við ræðum muni breyta því á einhvern hátt. Mér finnst þetta ekkert gera kerfið eða það að geta keypt sér húsnæði neitt einfaldara. Ég held að það verði enn þá til staðar starfsmaður í bankanum sem lagfærir greiðslumatið, þannig að þetta verður ekki allt uppi á borðum.

Það er líka tekið til þess að í 27. gr. núgildandi laga sé kveðið á um að Seðlabanka Íslands sé heimilt að undangengnu samþykki fjármálastöðugleikanefndar, sem ég ræddi hér fyrst, að ákveða í reglum hámark heildarfjárhæðar fasteignaláns eða greiðslubyrðar þess í hlutfalli við tekjur neytenda. Það er sá hlutur sem skiptir öllu máli og einmitt þetta að það hefur mismunandi áhrif eftir hópum, það er mismunandi hvað fólk hefur í tekjur, hvar það býr á landinu o.s.frv.

Það er líka farið inn á að í nágrannaríkjum okkar séu svona takmörk sett á greiðslubyrði fasteignalána. Mér finnst algjörlega verið að bera saman epli og appelsínur þegar verið er að bera Ísland saman við önnur lönd, sérstaklega vil ég nefna Danmörku í þessu sambandi þar sem ég þekki ágætlega til. Þar eru leigufélög sem eru virk, þau gagnast mjög mörgum og eru á mismunandi formi. Ég þekki til þess að börn sem eru skírð fá gjarnan númer í slík félög í skírnargjöf til þess að þau komist sem fyrst inn í svoleiðis kerfi ef það verður þörf á því þegar fram líða stundir. Það segir manni bara það að þetta er virkur markaður, leigumarkaður, sem er í rauninni líka nokkurs konar samkeppnismarkaður eins og við viljum gjarnan hafa hér þegar við erum að taka lán, að það sé líka samkeppni á lánamarkaði þegar við erum að fjárfesta.

Það er tekið til hér að hlutfall af greiðslubyrði hafi verið skoðað í samhengi við fjármálahrunið. Við þekkjum auðvitað að það voru margir sem misstu húsnæði sitt þannig en ég vil nú leyfa mér að halda því fram að það sé ekki vegna þess að fólk hafi ekki viljað greiða af lánum sínum og þess vegna þurfi að setja þetta hámark. Ég vil meina að rétturinn hafi allur verið bankanna megin meðan fólkið var sett út á götu. Svo einfalt er það.

Það er talað um að efri mörk hámarksins séu sett við 50% þar sem rannsóknir sýni að lán veitt með svo háu hlutfalli af greiðslubyrði séu líklega áhættusöm og ólíklegt að reglum á þessu sviði verði beitt með hærra hlutfalli. Enn og aftur á að hafa vit fyrir fólki og enn og aftur er fólk sett í ákveðna fjötra. Enn og aftur verður fólk fast á leigumarkaði. Þannig að þetta er dálítið snúið. En það er algjörlega á tæru að það er ekki endilega verið að horfa til hags neytenda með því að setja þetta þak. Það er reynt að hafa, eins og það er orðað óbeint, vit fyrir neytendum en við vitum sjálf hvar við stöndum hverju sinni og það þarf ekki að segja okkur það.

Það er verið að ræða hér um ýmis meginefni og þá skiptir sérstaklega máli að við ræðum um ungt fólk og þá sem hafa ekki háar tekjur til að spila úr, að samningar um fasteignalán sem eru veitt í tengslum við hlutdeildarlánin verði undanþegnir þessum VII. kafla laganna. Það gefur augaleið en við höfum líka heyrt sögur af því að fólki sé synjað um hlutdeildarlán, það nái ekki einu sinni upp í þau mörk sem eru sett þar fram, þannig að það þarf að gera betur en þetta.

Það var haft samráð við ýmsa aðila þegar verið var að semja þetta frumvarp sem við erum með hér, við Seðlabanka Íslands og svo auðvitað ráðuneytin. Það komu umsagnir frá ýmsum aðilum, mjög góð umsögn frá Samtökum fjármálafyrirtækja, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun var einnig með umsögn og svo Hagsmunasamtök heimilanna. Ég verð að viðurkenna, þar sem ég er ekki í þessari nefnd, að ég sakna dálítið að sjá ekki umsögn frá Neytendasamtökunum. Ég hefði viljað sjá þeirra orð einhvern veginn sett hér inn í texta. Þau hefðu látið sig málið varða og það hefði gagnast.

En ef við förum í umsögn sem Samtök fjármálafyrirtækja sendu eru tiltekin nokkuð mörg atriði, mig minnir að það séu fimm atriði, þar sem er bent á að það séu nokkur álitaefni sem þurfi að huga að. Það er þá í fyrsta lagi að það sé ekki heimilt að festa heimildir í lögum til að víkja frá hámörkum og svo er annað atriði í umsögninni sem snýr að möguleikum neytenda og því að nýta sér breytt vaxtakjör. Við vitum að þetta er kvikur markaður og það er mjög nauðsynlegt fyrir fólk að geta alltaf fundið sér hagstæðustu lánin, t.d. ef þau batna í einhverjum bankanum, að geta þá skipt um banka, og ef vextir lækka. Þetta eru fjöldamörg atriði sem þarf að huga að.

Síðan er tekið til skilgreiningar á ráðstöfunartekjum. Eins og kom fram í ræðu áðan eru hreinlega mismunandi skilgreiningar á ráðstöfunartekjum þannig að það þyrfti kannski að skoða betur. Svo er ekki rétt að það sé heppilegt að sömu takmörk séu fyrir einstaklinga og sambúðarfólk og undir það er tekið hjá samtökunum, að það sé ekki rétt. Það er hægt að skilgreina þá hópa sem eru að taka lán eða hópa neytenda, eins og segir í frumvarpinu, út frá fjölskylduformi eða landsvæðum.

Síðasta atriðið er að þetta muni herða aðgengi eða tálma aðgengi að íbúðalánum fyrir lágtekjuhópa og yngri kaupendur. Við vitum að bæði yngri kaupendur og lágtekjuhópar er t.d. fólk sem er í námi og er stundum fast á leigumarkaði sem er sjaldnast hagstæður, þannig að þetta eru sjónarmið sem mættu alveg koma fram.

Það er tekið til að tekjur neytenda séu nú þegar í lögum um fasteignalán og það er verið að segja hér og festa það að ef maður setur niður þessi lög þá hafi hópur neytenda sem hyggur á mesta skuldsetningu vegna íbúðakaupa ekki sömu möguleika til skuldsetningar. Mér finnst þetta dálítið sérstakt orðalag. Ég myndi frekar halda því fram að fólk vilji ekkert endilega skuldsetja sig meira en það þarf. En svona er þetta.

Síðan er tekið til að með beitingu þessarar heimildar verði lánastofnunum gefið svigrúm til að veita hluta lána á ákveðnu tímabili þar sem framangreind hlutverk eru umfram hámark. Með því svigrúmi aukist möguleikar ákveðinna neytenda til að fá lán þrátt fyrir þessi hámörk ef þeir eru með tímabundið frávik í tekjum eða flytja búferlaflutningum. Það er kannski akkúrat þetta atriði sem verður þá líka skrifað inn í greiðslumat af starfsmanni bankanna til að reyna að sjá í gegnum sífellt flóknara regluverk til að viðkomandi geti fengið greiðslumat sem hæfir, sem er í lagi, þannig að kannski fer fólk að segja að það sé að fara að flytja eða hafi verið að flytja. Það eru alls konar flækjustig í þessu.

Að lokum langar mig aðeins að nefna jafnréttismat sem er mjög aftarlega í frumvarpinu. Það er talað um að ekki séu um nein sérstök jafnréttisáhrif að ræða í frumvarpinu og að heimildin sem sé afmörkuð í frumvarpinu hafi mismunandi áhrif á kynin. Ég ætla að leyfa mér að fara aðeins inn í þetta. Það er ekki bara kynjajafnrétti sem skiptir máli, það er líka alls konar annars konar jafnrétti. Það er jafnrétti milli þeirra sem eru eldri og yngri og það er líka jafnrétti milli þeirra sem búa í þéttbýli og dreifbýli. Mér finnst það dálítil einföldun á hlutunum að halda því fram að við þurfum bara að horfa til þess að konur séu að meðaltali með lægri tekjur. Mér finnst þarna nánast talað niður til kvenna, ég ætla að leyfa mér að segja það, og það mætti taka til mun fleiri atriði heldur en hér er gert.

Ég held að ég sé komin á enda þessa frumvarps sem er ágætt að mestu leyti, en þó er það flókið þegar maður fer að rýna í það.