151. löggjafarþing — 112. fundur,  11. júní 2021.

póstþjónusta og Byggðastofnun.

534. mál
[15:20]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Herra forseti. Aftur þakka ég andsvarið og áhugaverðar hugleiðingar. Fyrst þetta með örar breytingar. Það er tvennt sem skiptir máli í netvæðingunni, ekki síst fyrir hinar dreifðari byggðir: Það er öryggi og það er netvæðing úti á landi. Ýmis tækifæri eru fólgin í póstburði á netinu, altso á bréfum, en við förum ekki þangað nema það sé alveg tryggt að þar sitji allir við sama borð. Aftur og aftur komum við að grunninum fyrir byggð um allt land, netvæðingunni. Svo er hitt sem netvæðing hefur gert, hún hefur leitt af sér netverslun. Hún hefur leitt af sér aukið aðgengi íbúa, ekki síst í hinum dreifðari byggðum, til að kaupa og fá sent heim og þar með myndast akkúrat markaður fyrir pakkana sem gerði það að verkum að upp risu öll þessi smærri fyrirtæki úti á landi sem ríkið fór síðan í hörkusamkeppni við. Það er málið. Það er svo mikil gerjun, rétt eins og hv. þingmaður kemur inn á. Ég, líkt og hv. þm. Karl Gauti Hjaltason, er ánægð með að nefndin skyldi hafa falið vinnuhópnum svona skýrt verkefni. Það verður ekki síst að horfa á þessa þætti og jafnvel með

spádómsgleraugum. Varðandi það að nýta sér ferðina þá get ég ekki nákvæmlega svarað fyrir hvað er verið að hugsa þar en ég veit það og hef fyrir satt að það eru bæir, t.d. um Norðausturland, þar sem menn vilja fá póstinn á pósthús á Akureyri og vera með sérbíla, nýta sér einhverjar aðrar ferðir til að fá póstinn til baka og keyra síðan á einstaka staði frekar en að treysta á dreifingu Póstsins vegna þess að það gengur betur og er öruggara. Mögulega eru menn að hugsa sér eitthvað svoleiðis, einhverja samnýtingu, án þess að ég treysti mér til að fara út í það. Það er alla vega möguleiki.