151. löggjafarþing — 112. fundur,  11. júní 2021.

póstþjónusta og Byggðastofnun.

534. mál
[15:22]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Herra forseti. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um póstþjónustu og lögum um Byggðastofnun gengur að meginhluta til út á að flytja póstmál frá Póst- og fjarskiptastofnun til Byggðastofnunar en eins og komið hefur fram fyrr í þessari umræðu hafa ýmis atriði komið með, ferðin var nýtt ef svo má segja. Úr því að lögin voru opin þá var gengið sömuleiðis til þess verks að laga vandamál sem höfðu komið upp við síðustu breytingar í lagaumhverfi póstþjónustu.

Ég vil byrja á að þakka samnefndarmönnum mínum fyrir vinnuna og vekja athygli á því að allir nefndarmenn eru á þessu áliti. Sérstaklega þakka ég hv. þm. Líneik Önnu Sævarsdóttur, framsögumanni málsins, fyrir góða vinnu. Ég held að sem betur fer hafi þessar viðbætur, sem ég ætla að leggja sérstaka áherslu á í ræðu minni, tekist með prýði.

En fyrst örlítið um upphaflegu efnisatriðin í frumvarpinu frá ráðherra. Hér segir, með leyfi forseta:

„Með frumvarpinu flytjast verkefni póstmála til Byggðastofnunar og er þess gætt að hlutverk Byggðastofnunar verði það sama og hlutverk Póst- og fjarskiptastofnunar fyrir tilfærsluna og að Byggðastofnun hafi allar sömu heimildir og skyldur sem lagðar voru á Póst- og fjarskiptastofnun.“

Meginatriðin liggja því fyrir hér. Áfram segir í nefndarálitinu um umfjöllun nefndarinnar, með leyfi forseta:

„Allmargir umsagnaraðilar hvetja til flutnings póstmála, frá Póst- og fjarskiptastofnun til Byggðastofnunar, að því gefnu að fjármagn og mannauður til að sinna verkefninu svo vel sé verði tryggður og þar með virkt eftirlit með póstþjónustu.“

Þetta er það sem ég vildi halda til haga í ræðu minni. Það verður að gæta þess að fjármagn og mannauður flytjist með þessum verkefnum til Byggðastofnunar þannig að þessi þáttur þeirrar þjónustu og starfsemi sem Póst- og fjarskiptastofnun heldur nú utan um og mun færast yfir til Byggðastofnunar verði ekki í lausu lofti á meðan ný þekkingaruppbygging á sér stað aftur. Ég beini því til ráðherra og ráðuneytis að huga vel að því. Aðrir umsagnaraðilar lýstu efasemdum um breytingarnar, m.a. vegna hættu á að sérfræðiþekking og reynsla myndu mögulega glatast við flutning milli stofnana.

Ýmis atriði eru reifuð þarna sem hafa komið upp í umræðunni. Sérstaklega voru rædd sjónarmið sem sneru að ákvæðum 2. mgr. 17. gr. laga sem kveða á um að gjaldskrá fyrir alþjónustu skuli vera sú sama um allt land en það eru ákvæði sem komu inn í nýjum lögum um póstþjónustu, nr. 98/2019. Þetta er það sem við í daglegu tali tölum um sem sama gjald um allt land fyrir pakka að 10 kílóum að þyngd. Það sem nefndarmenn og þingið sá ekki fyrir við breytingarnar 2019 voru þau gríðarlegu áhrif sem þær myndu hafa á samkeppnisstöðu flutningafyrirtækja sem höfðu þjónustað þessa markaði, hin ýmsu svæði landsbyggðarinnar, árum saman og jafnvel áratugum saman og gert það vel. Skyndilega var uppi sú staða að þessi fyrirtæki máttu sín lítils í verðsamkeppni við Póstinn þar sem ákvörðun var tekin af hendi stjórnar Íslandspósts um að verðið á Reykjavíkursvæðinu, þar sem pakkaflæðið er mest og tilkostnaðurinn við að koma hverjum pakka á áfangastað minnstur ef allt er eðlilegt, yrði viðmiðunargjaldið um land allt. Þar með var fótunum kippt undan samkeppnisstöðu einkarekinna flutningafyrirtækja landið um kring með því sem yrðu ófyrirséðar afleiðingar ef ekki hefði verið brugðist við eins og nú er gert. Ég vil því bara fagna þeirri sátt sem náðist um þetta. Hv. þm. Hanna Katrín Friðriksson kom ágætlega inn á það í ræðu sinni hér á undan að tímasetning breytinganna er miðuð við 1. nóvember 2021 þó að upphaflega hafi hún verið áætluð 1. september. Ég held að meira máli skipti að þessar lagfæringar gangi í gegn heldur en hvort þær gangi í gegn 1. september eða 1. nóvember og lýsi bara ánægju minni með að sú niðurstaða hafi náðst.

Það sem ég ætlaði að koma inn á, til viðbótar við það sem snýr að gjaldskrá alþjónustu og það atriði sem snýr að 2. mgr. 17. gr. um að sama gjald sé um landið allt fyrir pakka að 10 kílóum, er það sem í nefndarálitinu er kallað greining á tækifærum til úrbóta á póstmarkaði. Hér segir, með leyfi forseta:

„Nefndin leggur því til að ráðherra, í samstarfi við fjármála- og efnahagsráðherra, skipi starfshóp sem meti hvernig best megi tryggja að náð verði markmiði 1. gr. laga um póstþjónustu, nr. 98/2019, sem er „að stuðla að hagkvæmri, virkri og áreiðanlegri póstþjónustu um land allt og til og frá landinu, m.a. með því að tryggja notendum aðgang að alþjónustu eins og hún er skilgreind á hverjum tíma og með því að efla samkeppni á markaði fyrir póstþjónustu“. “

Þarna er horft til þess að settur verði á laggirnar starfshópur sem eigi að skila af sér niðurstöðum eigi síðar en 1. október 2021. Það er tilviljun, bara svo að það sé nefnt, að það er sama dagsetning og breytingin hvað verðlagningu pakka varðar. Sú ákvörðun er ekki í neinu samhengi við skýrslu starfshópsins sem hér er lagt til að ráðherra setji saman. Það var sérstaklega komið inn á það í nefndinni, ég kom inn á þau mál og hv. þm. Hanna Katrín Friðriksson, að eðlilegt væri að í þessari vinnu væru aðilar með fjölbreytt sjónarmið; fulltrúar einkaaðila sem stunda þennan flutning og fulltrúar sveitarfélaganna og annarra slíkra sem gætu komið með gagnlegt „input“, það væri ekki bara starfshópur ráðuneytisstarfsmanna þótt sérfræðingarnir þar séu mikilvægir í þessum efnum. Ég fagna því að tekið hafi verið sérstakt tillit til þess og jákvætt í það.

Í þessu samhengi leggur nefndin áherslu á að horfa til tækifæra sem felast í að gera breytingar á þjónustunni fyrir allt landið sem leitt gætu til aukinnar hagræðingar. Þar má t.d. nefna aukna sjálfsafgreiðslu, rafrænar lausnir, aukna samþættingu póstþjónustu og annars aksturs í dreifbýli, svo sem með auknum heimildum verktaka hjá Íslandspósti ohf. til að taka að sér önnur verkefni samhliða póstþjónustu og einnig möguleikann á að semja við verktaka sem nú þegar sinna annarri þjónustu í dreifbýli um að taka að sér póstþjónustu.

Þetta er einmitt lykilatriði held ég. Með þeirri nálgun sem hér er teiknuð upp varðandi þennan starfshóp er hægt að horfa heildstætt á póstmarkaðinn og reyna að meta út frá mismunandi svæðum og mismunandi hagsmunum og samsetningu þjónustuþátta hvort skynsamlegt sé að nýta núverandi fyrirkomulag eða mögulega gera tilraunir með að semja við aðila sem þegar eru á þessum markaði eða á markaði með hliðstæða þjónustu, ef svo má segja, þannig að við getum náð betri samnýtingu og náð þar með niður kostnaði og hugsanlega aukið fjölda dreifingardaga eða stytt afhendingartíma og þar fram eftir götunum. Við eigum að vera algerlega opin fyrir því að þetta sé gert með hagkvæmasta hætti því að á endanum eru það neytendurnir, þeir sem kaupa þjónustuna, íbúar landsins landið um kring, og fyrirtækin sem njóta þess mest ef okkur tekst vel til með þessar lagfæringar.

Ég ítreka bara að ég fagna því að nú sé lagt til að þessi starfshópur verði skipaður og að hann skili greinargerð eigi síðar en 1. október 2021. Í þessu held ég að felist alveg gríðarleg tækifæri. Við sjáum svo dæmi sé tekið að fjöldi póstdreifingardaga er orðinn mun takmarkaðri en hann var en blöð eins og t.d. Morgunblaðið eru borin út sex daga vikunnar. Það er því verið að bera út póst, bréf, vörur og afhenda hluti með einum eða öðrum hætti flesta daga ársins. Það er samþættingin, að samtvinna þetta með þeim hætti að aukið hagræði náist, og bætt þjónusta sem er auðvitað óskastaðan og það sem hlýtur að vera vilji þingsins að verði raunin að þessari vinnu lokinni.

Ég vil bara skilja þetta eftir hér við þessa umræðu. Ég ítreka að ég fagna þessum tveimur ákvörðunum sem eru til viðbótar við það sem kom fram í upphaflega frumvarpinu og voru teknar við vinnu nefndarinnar, annars vegar um skipan starfshópsins og hins vegar um lagfæringu á gjaldskránni sem er gríðarlega mikilvægt atriði. Ég held að þegar málið er skoðað í kjölinn verði í rauninni að beita öðrum leiðum til þess að lækka kostnað við dreifingu pakka á landsbyggðinni heldur en að slá af einkafyrirtækin sem hafa þjónustað þann markað áratugum saman. Það þarf þá að gerast með útfærslu einhvers slags flutningsjöfnunarkerfis eins og segir hérna, þ.e. ábending frá Samkeppniseftirlitinu um að finna þurfi aðrar leiðir til að tryggja hagstæða verðlagningu á póstþjónustu í dreifðum byggðum, t.d. með vel útfærðri flutningsjöfnun.

Allir þessir þættir verða uppi á borðum. Ég óska starfshópnum góðs gengis um leið og ég ítreka þakkir mínar til nefndarmanna og framsögumanns fyrir góða vinnu og samhljóm í vinnu nefndarinnar hvað vinnslu þessa máls varðar og þær lagfæringar sem þurfti að gera og þau atriði sem bætt var við eftir að málið kom inn.