151. löggjafarþing — 112. fundur,  11. júní 2021.

póstþjónusta og Byggðastofnun.

534. mál
[15:37]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Fyrst vil ég biðjast afsökunar á þessari enskuslettu minni, sem ég verð að viðurkenna að ég man ekki í hvaða samhengi ég nefndi en mun samviskusamlega verða við tilmælum forseta og gæta mín hér eftir. Ég þakka hv. þm. Smára McCarthy fyrir andsvarið. Ef ég byrja á þeim atriðum sem verið er að bæta við núna frá framlagningu frumvarpsins sem snúa að starfshópnum annars vegar og hins vegar breytingu á „eitt verð fyrir allt landið“-klásúlunni gagnvart 10 kg pökkum og léttari, er ég bjartsýnn á hvað starfshópinn varðar að við séum að horfa til þess að kerfið verði hagkvæmara; meira flæði, meiri fyrirsjáanleiki, af því að það verði opnara gagnvart því með hvaða hætti hægt verður að veita þjónustuna á hverjum stað fyrir sig. Þannig að ég er sannfærður um að það verði til bóta. Hvað varðar breytinguna sem snýr að landinu sem einu verðsvæði þá eru áhrifin af því margþætt. Það sem vinnst með þessu er að það varnar því að flutningafyrirtæki úti á landi líði ekki hreinlega út af vegna þess að þau eiga ekki möguleika í niðurgreiddri samkeppni við Íslandspóst, sem hún sannarlega er, eins og reglurnar eru núna. Ef ekki er gripið til annarra aðgerða þá hefur það auðvitað áhrif til hækkunar hvað afhendingarkostnað varðar á landsbyggðinni. En þá bendi ég aftur á það sem Samkeppniseftirlitið lítur á: Það þarf mögulega að skoða vel útfærðar jöfnunaraðgerðir. En ef við horfum á frumvarpið sjálft eins og það kom fram ættu það ekki að vera miklar breytingar því að verið er að færa þetta í heilu lagi frá Póst- og fjarskiptastofnun yfir til Byggðastofnunar. En lykilatriðið í því er auðvitað það sem ég kom inn á, að fjármagnið, mannauðurinn, mannaflið og þekkingin flytjist með. Ef þetta svarar spurningu hv. þingmanns.