151. löggjafarþing — 112. fundur,  11. júní 2021.

slysatryggingar almannatrygginga.

424. mál
[17:34]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Þetta frumvarp er að mörgu leyti gott og ég þakka nefndinni fyrir góða vinnu við samningu þess. Hér er á ferðinni mjög mikilvægt mál sem getur skipt þá einstaklinga sem hér falla undir miklu máli. Ég hef, eins og kom fram í andsvari, mikinn áhuga á því með hvaða hætti verður staðið að reglugerðarsmíðinni þegar kemur að því að kveða á um atvinnusjúkdóma sem ekki orsakast af slysum. Eins og kemur fram í 5. gr. frumvarpsins er lagt til að ráðherra skuli setja reglugerð þar sem fram kemur hvaða atvinnusjúkdómar skuli teljast bótaskyldir. Þær breytingar sem lagðar eru til með þessu, sem ég fagna að sjálfsögðu, staðfesta þá framkvæmd, eins og segir hér:

„… meðferð mála hjá Sjúkratryggingum Íslands vegna bótaskyldra atvinnusjúkdóma er sú sama og vegna bótaskyldra slysa og bætur samkvæmt lögunum eiga einnig við um bótaskylda atvinnusjúkdóma. Þegar vísað er til slysatryggðra í lögunum er því einnig átt við þá sem veikjast af atvinnusjúkdómi sem er bótaskyldur.“

Þetta er að sjálfsögðu mjög mikilvægt og ég þakka enn og aftur nefndinni fyrir að þetta sé komið í lagatextann.

Ég hef svolítið stórt hjarta gagnvart slökkviliðsmönnum hvað þetta varðar. Ég sjálfur starfaði við slökkvistörf í nokkurn tíma og þekki starfið ágætlega. Slökkviliðsmenn eru oft og tíðum undir gríðarlegu álagi og vinna við aðstæður sem enginn í raun og veru treystir sér í nema þeir, þ.e. þegar menn yfirgefa hættulegar aðstæður, brennandi hús, þá þurfa slökkviliðsmanna að fara þangað inn. Vissulega hefur búnaður slökkviliðsmanna lagast og er orðinn betri en hann var, reykköfunartæki og gallar o.s.frv., en það er hins vegar aldrei hægt að koma fyllilega í veg fyrir að þeir geti orðið fyrir heilsubresti vegna þeirra efna sem eru á brunastað og valda mjög hættulegum reyk og búið að sýna fram á að geta valdið heilsubresti hjá slökkviliðsmönnum. Tíðni krabbameins meðal slökkviliðsmanna hefur aukist mjög á undanförnum árum og ein af ástæðum þess er að í brunum í dag brenna allt önnur efni en áður þekktust. Við þekkjum það bara að fyrir 40 árum þá voru innanstokksmunir gerðir úr timbri og ull og hálmi o.s.frv. en flest af því sem við eigum á heimilum okkar í dag er úr ýmsum plastefnum og þegar þau brenna þá losnar náttúrlega gríðarlegt magn eldsneytis og eiturgufa. Erlendar rannsóknir hafa m.a. sýnt að plastefni hafa fundist í þvagi slökkviliðsmanna.

Slökkviliðsmenn á Íslandi hafa fundið fyrir þessu á eigin skinni í bókstaflegri merkingu. Flestir sem hætta að vinna sem slökkviliðsmenn í dag eru rúmlega 60 ára að aldri. Það verður bara að segjast eins og er, forseti, að ótrúlega margir þeirra eru að fást við krabbamein, hjartasjúkdóma og yfirgnæfandi meiri hluti þeirra hefur átt og á við stoðkerfisvandamál að stríða. En þeir voru hins vegar í góðu formi þegar þeir voru yngri og alla sína ævi.

Á Norðurlöndum hafa slökkviliðsmenn rekið nokkur mál fyrir dómstólum til að ná fram bótum og viðurkenningu á atvinnusjúkdómi en eðli málsins samkvæmt hafa slökkviliðsmenn oft ekki hugmynd um hvaða efni það eru sem eru að brenna í húsbruna, í atvinnuhúsnæði eða flugvélum eða skipum, og hvaða afleiðingar það hefur á heilsu þeirra. Það er enginn slökkviliðsmaður sem veltir því fyrir sér áður en hann fer á brunastað og þarf að bjarga mannslífum hvaða áhrif það getur haft á heilsu hans. Slökkviliðsmenn hafa það hlutverk að bjarga fólki og þeir leggja sig í mikla hættu við það. Það er nú einu sinni þannig að starf slökkviliðsmannsins er eitt erfiðasta starf sem hægt er að sinna. Ég þekki þá tilfinningu að ganga inn í brennandi hús, fullt af reyk og eldi og miklum hita. Það er mjög sérstök tilfinning. Þessu starfi fylgir mikil hætta, ég held að allir átti sig á því og viðurkenni það. Síðan er það þessi hætta sem gerir það að verkum að slökkviliðsmenn eru útsettari fyrir alvarlegum atvinnusjúkdómum en aðrar starfsstéttir. Það að fara inn í brennandi hús er vissulega hættulegt en hefur ýmsar leyndar hættur sem ekkert margir vita um.

Sem betur fer hefur enginn slökkviliðsmaður á Íslandi látist við skyldustörf en það er hins vegar annar þáttur sem almenningur veit ekki um og er jafnvel enn hættulegri og það er svokölluð reykköfun. Mikil vakning hefur orðið meðal slökkviliðsmanna um allan heim vegna þeirrar staðreyndar að fjöldi slökkviliðsmanna hefur látist af völdum krabbameins og þar eru íslenskir slökkviliðsmenn ekki undanskildir. Rannsóknir sýna að slökkviliðsmenn eru allt að tvisvar sinnum líklegri til að þróa með sér ákveðnar tegundir krabbameina og að krabbamein hjá slökkviliðsmönnum vaxi mun hraðar en gengur og gerist hjá öðrum. Strax eftir fimm ár í starfi hafa líkur á krabbameini meðal slökkviliðsmanna aukist verulega. Margar rannsóknir hafa verið gerðar hvað þetta varðar og er niðurstaðan ávallt sú sama. Í Kaliforníu í Bandaríkjunum var sett löggjöf árið 1984 til að aðstoða þá slökkviliðsmenn sem greindust með krabbamein og er í dag svipuð löggjöf í öllum Bandaríkjunum. Sú löggjöf felur í sér að krabbamein sé skilgreint sem atvinnusjúkdómur að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Árið 2002 tóku Kanadamenn upp svipaða löggjöf og síðan Ástralir árið 2012.

Þó svo að þeir brunar sem koma upp í dag séu jafn alvarlegir og þeir voru fyrir 50–60 árum þá er staðreyndin sú að þeir innihalda miklu meira af efnum sem valda krabbameini. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin og Alþjóðakrabbameinsstofnunin hafa gert rannsóknir sem sýna fram á að við bruna myndast í reyknum gríðarlega mikið magn af krabbameinsvaldandi efnum. Þetta er búið að sýna fram á af viðurkenndum stofnunum eins og Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni og Alþjóðakrabbameinsstofnuninni. Það þarf því enginn að velkjast í vafa um að þetta er niðurstaðan. Margar rannsóknir hafa verið gerðar á tíðni krabbameins meðal slökkviliðsmanna og benda þær allar til þess að það séu tengsl á milli starfs slökkviliðsmanna og aukinnar tíðni krabbameins. Þótt flestar rannsóknir séu gerðar erlendis má vel heimfæra þær á íslenska slökkviliðsmenn, enda vinna þeir við sömu aðstæður og slökkviliðsmenn erlendis. Það er einmitt þessi mikli fjöldi af krabbameinsvaldandi efnum sem gerir starfið hættulegra en marga grunar. Það er ekki möguleiki fyrir slökkviliðsmenn að verjast upptöku á slíkum efnum nema að mjög litlu leyti.

Það er alveg ljóst, herra forseti, að notkun á plastefnum í húsgögnum og húsbúnaði mun ekki minnka á næstu áratugum. Ég held að það sé nokkuð ljóst. Bara í Kína, þar sem megnið af plastframleiðslu heimsins fer fram, verða til tugir nýrra plastefna í hverjum mánuði. Ég held að það séu ekki margir sem átta sig á því en þetta er staðreynd og erfitt að halda utan um þau efni sem notuð eru við framleiðslu á þessum plastvörum. Þrátt fyrir miklar forvarnir, betri útbúnaði slökkviliðsmanna, eins og ég nefndi áðan, við slökkvistörf þá eiga þeir aldrei möguleika á að verja sig fullkomlega fyrir þeim krabbameinsvaldandi efnum sem finna má í reyknum sem myndast við brunann. Síðan er það líka hinn gríðarlegi hiti sem slökkviliðsmenn þurfa að kljást við. Til að verjast hitanum þarf hlífðarfatnaður þeirra að geta andað, það er nú þannig, til þess að losa líkamann við raka, því að slökkviliðsmenn svitna alveg gríðarlega mikið við störf sín. Það leiðir svo af sér að krabbameinsvaldandi efni eiga greiða leið í gegnum hlífðarfatnaðinn og megnið af þessum efnum tekur líkaminn síðan inn í gegnum húðina. Þess vegna er mjög mikilvægt að koma upp vinnuferlum við árlegar læknisskoðanir slökkviliðsmanna sem eykur líkurnar á að krabbamein greinist snemma hjá þeim svo og að fá ákveðinn krabbamein meðal slökkviliðsmanna viðurkennd sem atvinnusjúkdóm að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Í Kanada, Bandaríkjunum og Ástralíu eru um 15 tegundir af krabbameini sem falla í flokkinn atvinnusjúkdómur hjá slökkviliðsmönnum. Eins og ég kom inn á áðan þá koma fyrstu inn eftir fimm ára starf og svo bætast við fleiri eftir því sem slökkviliðsmenn hafa lengri starfsaldur.

Herra forseti. Það er eðlileg krafa af hálfu slökkviliðsmanna að litið verði til þeirra fjölmörgu rannsókna sem styðja málstað þeirra og unnið verði að því að tryggja slökkviliðsmenn gegn þeim krabbameinum sem þeir eru útsettir fyrir. Slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn komu á fund nefndarinnar og ég veit til þess að þeir gerðu mjög vel grein fyrir máli sínu þar og veittu allar þær upplýsingar sem nefndarmenn óskuðu eftir hvað þetta varðar. Slökkviliðsmenn á Íslandi eru frekar fámennur hópur og þó svo að tíðni krabbameins meðal slökkviliðsmanna sé með því hæsta sem þekkist meðal starfsstétta þá ætti kostnaðaraukningin fyrir ríkissjóð ekki að vera mikil. Í Bandaríkjunum, Kanada og Ástralíu eru yfir 99% allra slökkviliðsmanna tryggð fyrir starfstengdu krabbameini. Það er löngu tímabært að sjúkdómar á borð við krabbamein, hjartasjúkdóma og stoðkerfisvandamál verði viðurkenndir hjá slökkviliðsmönnum.

Í ljósi þessa alls, þar sem það er lagt til í þessu frumvarpi að ráðherra setji reglugerð þar sem fram kemur hvaða atvinnusjúkdómar skuli teljast bótaskyldir og vegna mjög sérstakra aðstæðna sem slökkviliðsmenn vinna við samanborið við aðrar starfsstéttir og mun hættulegri starfsaðstæðna, vil ég leyfa mér að segja, þá mæli ég hér fyrir breytingartillögu við frumvarpið þess efnis að við 2. efnismgr. 5. gr. bætist: þ.m.t. hvaða gerðir krabbameina skulu teljast bótaskyldir atvinnusjúkdómar hjá slökkviliðsmönnum.

Tilgangurinn er sá að það sé vilji löggjafans að ráðherra horfi til þess að slökkviliðsmenn eru mjög útsettir fyrir ákveðnum tegundum krabbameina samkvæmt viðurkenndum rannsóknum.

Að sjálfsögðu vona ég að þessi tillaga fái hér brautargengi og ég ítreka það sem ég sagði áðan, ég tel að starfsaðstæður slökkviliðsmanna séu með þeim hætti að það sé nauðsynlegt að löggjafinn veiti þessa vernd fyrir slökkviliðsmenn, ef það má orða það þannig, og þessar leiðbeiningar til ráðherra um að þeir verði taldir upp í reglugerðinni um atvinnusjúkdóma.