Bráðabirgðaútgáfa.

151. löggjafarþing — 112. fundur,  11. júní 2021.

fullnusta refsinga.

569. mál
[21:05]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég er ekki með nefndarálitið hérna með mér, en þegar ég renndi yfir það þá fannst mér ekki vera mikil leiðbeining um það sem maður gæti skilið sem svar við spurningunni: Og hvað svo? Eftir þrjú ár verður þetta skoðað og þá koma eflaust umsagnaraðilar og segja að þetta hafi allt gengið mjög vel og listarnir hafi styst. En ég hefði gjarnan viljað sjá afstöðu nefndarinnar til þess hvort ekki yrði bara fylgst með hvernig listarnir þróuðust heldur líka unnin einhver greining á því hvort styðja þurfi við og styrkja þau úrræði sem Fangelsismálastofnun hefur, bæði hvað varðar fjölda rýma sem eru til staðar og síðan auðvitað fjölda þeirra rýma þar sem fjármagn er til staðar til þess að reka. Ástæða þess að boðunarlistarnir eru jafn langir og raun ber vitni er að bæði rými og fjármagn hefur vantað. Þetta þekkjum við í gegnum söguna.

Mig langar að spyrja hv. framsögumann nefndarálitsins: Var það rætt að einhverju marki að uppáleggja væntanlega dómsmálaráðherra að vinna einhverja greiningu hvað þetta varðar? Það er ákveðin hætta á því að rökin fyrir því þegar þar að kemur að halda kerfinu með þessum hætti gætu orðið þau að menn sjái fyrir sér að þetta hafi allt verið að fara hratt í sama farið, því að þetta svigrúm hefur farið úr 3 mánuðum, ef ég man rétt, í 6, í 9 og 12 og síðan í 24 mánuði núna. Það fara væntanlega að verða (Forseti hringir.) mjög fáir brotahópar sem falla undir það þurfa raunverulega að sitja í fangelsi. (Forseti hringir.) Hefur framsögumaður skoðun á því hvort það ætti að skipta þessu, takmarka hvers lags brot þetta geti átt við um?