151. löggjafarþing — 112. fundur,  11. júní 2021.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl.

708. mál
[22:26]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Ari Trausti Guðmundsson) (Vg):

Herra forseti. Þetta nefndarálit er um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, sem við höfum venjulega kallað hringrásarhagkerfismálið því að það snýst að mörgu leyti um hringrásarhagkerfið. Hér liggur fyrir nefndarálit frá meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar og er hér einnig framhaldsnefndarálit sem ég mun gera grein fyrir.

Við fengum 36 gesti og 22 umsagnir í þessu máli og efni frumvarpsins er í raun og veru að lagt er til að lögfestar verði hér á landi fjórar tilskipanir Evrópusambandsins. Ég ætla ekki að lesa þær allar upp, það er auðvelt að kynna sér þær í nefndarálitinu. Auk þess eru lagðar til breytingar á framleiðendaábyrgð vegna rafhlaðna og rafgeyma og skilagjaldi á ökutækjum. Með breytingunum eru sköpuð skilyrði fyrir myndun hringrásarhagkerfis í íslenskri löggjöf í því skyni að ýta undir bætta endurnýtingu og endurvinnslu úrgangs og draga verulega úr myndun hans.

Varðandi almenna kaflann ætla ég að lesa úr nefndarálitinu: Sjálfbærni er löngu orðin viðurkennt stefnumið við auðlindanytjar. Það einkennir stefnumótun hér á landi í málefnum atvinnuvega og víða í hagkerfinu, t.d. í ferðaþjónustu, sjávarútvegi, landbúnaði og loftslagsmálum. Af sjálfbærni leiða þolmörk í auðlindanýtingu enda margar auðlindir jarðar óendurnýjanlegar. Kallar það á endurnýtingu þess efnis sem verður til eftir notkun vara úr hráefni slíkra auðlinda. Sama gildir um hráefni úr endurnýjanlegum auðlindum því það minnkar álag á mörg vistkerfi jarðar og virðir þolmörk auðlinda betur en ella. Grunnhugmynd um hringrásarhagkerfi tekur mið af þessum þáttum í auðlindanytjum. Samkvæmt stefnumiðum þessa hagkerfis er brýnt að flokka allan úrgang úr atvinnulífi og einkaneyslu, hagnýta sem mest af honum og umgangast hann sem hráefni nema að því marki sem hluti hans er óendurvinnanlegur. Meiri hlutinn telur frumvarpið mikið framfaraskref þar sem með því er stefnt að heildrænu skipulagi úrgangsmála hér á landi sem styður innleiðingu hringrásarhagkerfis.

Söfnun og endurvinnsla veiðarfæra, heyrúlluplasts og rúmfrekra plastíláta og umbúða undan matvælum eru meðal mikilvægra og umfangsmikilla verkefna sem bæta þarf í aðgerðaáætlun stjórnvalda um meðferð plastvara. Meiri hlutinn hvetur mjög til þess að farið verði samtímis yfir söfnunar- og flutningskostnað vegna þessa úrgangs. Enn fremur er brýnt að endurskoða fjárhagsumhverfi fyrirtækja sem stunda endurvinnslu plastefna og koma í fullnægjandi horf ef með þarf.

Þetta var almenni kaflinn um efni þessa frumvarps en svo kemur kafli um úrgang frá sláturhúsum og vinnslustöðvum. Þar bendir meiri hlutinn á að lífúrgangur er skilgreindur með þeim hætti í frumvarpinu að úrgangur frá sláturhúsum fellur ekki þar undir og verður því áfram heimilt að urða tiltekinn úrgang frá sláturhúsum. Ég vil bæta því við frá eigin brjósti að það er auðvitað tilgangurinn með þessari ábendingu meiri hlutans að útskýra að það er leyfilegt að urða sláturhúsaúrgang en það er auðvitað æskilegt að hann sé líka endurnýttur að því marki sem unnt er.

Svo er hér kafli um sérstaka söfnun og flokkun úrgangs. Þar bendir meiri hlutinn á að áfram verður heimilt að hafa tunnu fyrir blandaðan úrgang innan lóðar og telur ekki þörf á því að kveða á um skyldu til söfnunar slíks úrgangs innan lóðar úr því að það er heimilt að hafa þessi ílát innan lóðar. Meiri hlutinn áréttar einnig að upptalning úrgangstegunda sem skulu fá samræmdar merkingar er ekki tæmandi í ákvæðinu og leggur áherslu á að settar verði samræmdar merkingar fyrir sem flestar úrgangstegundir í reglugerð.

Um stjórn Úrvinnslusjóðs er það að segja að fyrst er reifað hvernig hún er skipuð og meiri hlutinn bendir þar á að úrvinnslugjaldið grundvallast á framleiðendaábyrgð, þ.e. þeirri skyldu sem hvílir á framleiðendum og innflytjendum til að tryggja ráðstöfun á þeim vörum sem lög um úrvinnslugjald taka til með tilheyrandi kostnaði. Framleiðendaábyrgðin hvílir ekki með sama hætti á sveitarfélögum, neytendum eða öðrum aðilum og telur meiri hlutinn því rétt að halda fyrirkomulagi skipunar stjórnarmanna óbreyttu. Meiri hlutinn beinir því þó til stjórnar Úrvinnslusjóðs að leita leiða til þess að eiga í góðu samráði við fulltrúa neytenda og umhverfissamtaka. Mikilvægt sé að þeir aðilar geti fylgt sjónarmiðum sínum eftir, t.d. á reglubundnum samráðsfundum með stjórn sjóðsins og eftir atvikum hagaðilum og sérfræðingum á sviðinu. Meiri hlutinn telur því jafnframt mikilvægt að samhliða því að komið verði á ríku samráði verði unnið að því að tryggja þessum fulltrúum áheyrnaraðild að stjórninni og beinir því til stjórnar sjóðsins og ráðuneytis að kanna möguleika á því.

Þá að breytingartillögum meiri hlutans. Þær efnismestu varða sjö atriði, fyrst hér um markmið um umhverfislegan ávinning. Ég ætla að lesa áfram úr nefndarálitinu:

Í 27. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar á markmiðsákvæði 1. gr. laga um úrvinnslugjald, nr. 162/2002. Í ákvæðinu kemur fram að markmið laganna sé m.a. að skapa skilyrði fyrir myndun hringrásarhagkerfis með vörur og þjónustu til að stuðla að sjálfbærri auðlindanýtingu, draga úr myndun úrgangs og auka endurvinnslu hans. Þá er jafnframt markmið laganna að skapa hagræn skilyrði fyrir endurnotkun og endurvinnslu úrgangs og aðra endurnýtingu úrgangs í þeim tilgangi að draga úr magni úrgangs, sem fellur til og fer til endanlegrar förgunar, og tryggja viðeigandi förgun spilliefna.

Meiri hlutinn telur rétt að þess sé getið sérstaklega í markmiði laganna að við sköpun hagrænna skilyrða fyrir endurnotkun og endurvinnslu úrgangs og aðra endurnýtingu úrgangs skuli höfð hliðsjón af umhverfislegum ávinningi, t.d. minni losun gróðurhúsalofttegunda. Þá bendir meiri hlutinn á að við mat á umhverfislegum ávinningi er mikilvægt að notuð sé viðurkennd aðferðafræði vistferilsgreiningar eða önnur sambærileg aðferðafræði. Þannig verði ekki eingöngu litið til fjárhagslegrar hagkvæmni heldur einnig áhrifa á umhverfið. Meiri hlutinn telur mikilvægt að markmiðsákvæðið taki þegar gildi enda sé um skýra stefnumörkun að ræða sem eðlilegt er að tekið sé mið af strax og meðan unnið er að gildistöku annarra ákvæða frumvarpsins. Leggur meiri hlutinn til breytingu þess efnis.

Hér er svo fjallað um innheimtu gjalds fyrir meðhöndlun úrgangs og þar lögð fram breytingartillaga. Til að mæta sjónarmiðum um hugsanlega háan kostnað sveitarfélaga leggur meiri hlutinn til að við lögin bætist ákvæði til bráðabirgða þess efnis að sveitarfélagi sé heimilt að innheimta allt að 50% af heildarkostnaði sveitarfélagsins í tvö ár, þ.e. til 1. janúar 2025. Þannig gefist sveitarfélögum rýmri tími til aðlögunar að breyttum reglum um innheimtu.

Fram kom að mikilvægt væri að ákvæðið væri skýrt um að færa mætti raunkostnað á milli úrgangsflokka í því skyni að stuðla að hringrásarhagkerfi og fram kom að mikilvægt væri að ákvæðið væri skýrt að því leyti að sveitarfélög hefðu heimild til að innheimta hærri þjónustugjöld vegna tiltekinna úrgangsflokka til að stuðla að hringrásarhagkerfi. Í því fælist ekki heimild til aukinnar gjaldtöku umfram heildarkostnað heldur aðeins breytt innheimta. Að sama skapi væri mikilvægt að byggðasamlög sveitarfélaga hefðu sömu heimild. Meiri hlutinn tekur undir framangreind sjónarmið og leggur til breytingu á 16. gr. frumvarpsins þess efnis.

Einnig er fjallað hér um veiðarfæri úr plasti og þar var um að ræða orðalag, þ.e. mun á orðalaginu „veiðarfæri sem innihalda plast“ og „veiðarfæri úr plasti“. Ástæðan fyrir því að þarna er dálítill merkingarmunur er sú að veiðarfæri eru jafnan úr öðrum efnum en bara plasti þannig að nefndinni þykir rétt að nota hugtakið „veiðarfæri sem innihalda plast“. Með vísan til þess leggur meiri hlutinn til breytingar á nokkrum ákvæðum frumvarpsins til að tryggja skýrleika og að þau eigi við um veiðarfæri sem innihalda plast en áréttar jafnframt að það nær þá einnig til veiðarfæra sem eru samsett úr nokkrum efnum, svo sem plasti, málmi og gúmmíi.

Þá er hér kafli um innleiðingu framleiðendaábyrgðar og úrvinnslugjalds. Meiri hlutinn telur mikilvægt að kostnaður vegna framlengdrar framleiðendaábyrgðar lendi ekki á sveitarfélögum heldur standi úrvinnslugjaldið undir honum. Meiri hlutinn leggur því til að við 29. gr. frumvarpsins bætist stafliður þess efnis.

Bent var á að fjallað er um framleiðendaábyrgð í þremur lagabálkum, lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, lögum um meðhöndlun úrgangs og lögum um úrvinnslugjald. Það geti því verið flókið að átta sig á umfangi framleiðendaábyrgðar. Meiri hlutinn tekur undir það og beinir því til ráðuneytisins að taka til skoðunar hvort tilefni sé til að endurskoða framangreinda lagabálka með hliðsjón af einföldun og skýrleika.

Í kafla um skilagjald á ökutæki, sem er býsna langur, ætla ég aðeins að fara í niðurstöðuna sem er sú að nefndin leggur til að gjaldið fyrir gjaldskyld ökutæki til móttökustöðvar til endurnýtingar eða förgunar hækki úr 20.000 kr. í 30.000 kr.

Þá kemur að kafla sem fjallar um hlutverk Úrvinnslusjóðs og hagræna hvata. Þar segir að meiri hlutinn telji mikilvægt að Úrvinnslusjóður stuðli að hringrásarhagkerfinu á Íslandi í starfsemi sinni en horfi ekki einungis til fjárhagslegrar hagkvæmni. Leggur meiri hlutinn því til þá breytingu á c-lið 37. gr. að vísað verði til umhverfislegs ávinnings. Þannig skuli Úrvinnslusjóður með hagrænum hvötum koma upp skilvirku fyrirkomulagi á úrvinnslu úrgangs sem sé tilkominn vegna vara sem falli undir lögin með hliðsjón af umhverfislegum ávinningi og leggja til grundvallar forgangsröðun við meðhöndlun úrgangs, sbr. 7. gr. laga um meðhöndlun úrgangs og 1. gr. laga um úrvinnslugjald.

Þá er alllangur kafli um endurvinnslu á plasti og tilheyrandi breytingartillögur. Meiri hlutinn áréttar að hagkvæmnis- og umhverfisverndarrök mæla með því að sem mest af plasti er til fellur í landinu verði endurunnið hérlendis og sem minnstur hluti fluttur úr landi. Tryggja verði að unnt sé að styrkja nýsköpun enn frekar á þessu sviði endurvinnslu, aðstoða jafnvel fyrirtæki til þess að sinna endurvinnslu plasts og auka jafnt sérhæfni sem samkeppni í þeim geira. Meiri hlutinn fagnar þeim styrktarsjóðum sem snúa að nýsköpun í úrgangsmálum.

Meiri hlutinn hvetur til þess að umhverfis- og auðlindaráðuneytið efni til átaks sem miði að því að koma bæði umgjörð innlendrar plastendurvinnslu og framkvæmd hennar í horf sem hæfir hringrásarhagskerfi sem best. Þar þarf að kanna og ákvarða hvort og þá að hve miklu leyti endurvinnsluþátturinn verði aðskilinn frá verkefnum Úrvinnslusjóðs. Á það við um endurvinnslu fleiri efna, t.d. glers og ef til vill málma á borð við ál.

Með vísan til framangreindra sjónarmiða um mikilvægi þess að sem mest af plasti er fellur til á landinu verði endurunnið á Íslandi leggur meiri hlutinn til breytingu á lögum um úrvinnslugjald, nr. 162/2002, þess efnis að nýjum málslið verði bætt við 2. mgr. 15. gr. sem kveður á um skyldu Úrvinnslusjóðs að tryggja að fullnægjandi gögn séu til staðar áður en greiðslur eru inntar af hendi. Af því leiðir að Úrvinnslusjóður þarf að fá upplýsingar um endanlega ráðstöfun plastúrgangs, hvar plastið verði endurunnið og hver umhverfisáhrif ráðstöfunarleiðar eru. Liggi þessar upplýsingar ekki fyrir getur Úrvinnslusjóður ekki greitt út fyrir ráðstöfun úrgangsins. Í ljósi þeirra hagsmuna sem eru undir og tengsla ákvæðanna við markmiðsákvæði leggur meiri hlutinn til að ákvæðið og aðrar breytingar á 2. mgr. 15. gr. laganna taki þegar gildi.

Þá er hér örstuttur kafli um hugtakanotkun sem tengist bestu aðgengilegu tækni eða svokallaðri BAT-tækni. Þetta er aðeins leiðrétting á orðalagi og ég ætla ekki að tíunda það hér heldur vinda mér beint í viðbót sem kemur fram í svokölluðu innleiðingarákvæði, sem er síðasti kaflinn í nefndarálitinu.

Líkt og að framan greinir felur frumvarpið í sér lögfestingu efnisákvæða fjögurra tilskipana Evrópuþingsins og ráðsins. Eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu hafa tilskipanirnar ekki verið teknar upp í EES-samninginn en unnið er að undirbúningi ákvörðunar þar um á vettvangi EES/EFTA ríkja. Frumvarp þetta felur því ekki í sér eiginlega innleiðingu á tilskipunum sem Íslandi er skylt að taka upp í landsrétt í kjölfar ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar og leggur meiri hlutinn því til að innleiðingarákvæði í 26. og 39. gr. frumvarpsins falli brott. Engu að síður eru efnisákvæði tilskipananna lögfest með frumvarpinu og telst því Ísland hafa uppfyllt sínar þjóðréttarlegu skuldbindingar hvað þær varðar verði þær teknar upp í EES-samninginn. Meiri hlutinn beinir því jafnframt til ráðuneytisins að fylgjast með framgangi gerðanna á þeim vettvangi og bregðast við ef þurfa þykir, svo sem með frestun gildistöku laganna, sem nú er 1. janúar 2023, til að tryggja að við upptöku gerðanna í EES-samninginn komi íþyngjandi kostnaðaráhrif ekki fram hjá íslenskum fyrirtækjum, sveitarfélögum og neytendum fyrr en fyrirkomulag framkvæmdar regluverksins liggur fyrir.

Þá leggur meiri hlutinn til nokkrar breytingar tæknilegs eðlis sem ekki er ætlað að hafa efnisleg áhrif.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Jón Gunnarsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifar undir álitið í samræmi við 2. mgr. 29. gr. laga um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991.

Guðjón S. Brjánsson og Hanna Katrín Friðriksson skrifa undir álitið með fyrirvara sem þau hyggjast gera grein fyrir í ræðu.

Þetta er dagsett 7. júní 2021 og undir þetta nefndarálit skrifa hv. þingmenn Ari Trausti Guðmundsson framsögumaður, Guðjón S. Brjánsson, með fyrirvara, Hanna Katrín Friðriksson, með fyrirvara, Jón Gunnarsson, Kolbeinn Óttarsson Proppé, Líneik Anna Sævarsdóttir og Vilhjálmur Árnason.

Þar með, herra forseti, hef ég gert grein fyrir þessu nefndaráliti eftir bestu getu og hef lokið máli mínu.