151. löggjafarþing — 112. fundur,  11. júní 2021.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl.

708. mál
[22:43]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Ara Trausta Guðmundssyni fyrir að gera svo skýrt og greinilega grein fyrir þessu ágæta frumvarpi og nefndaráliti umhverfis- og samgöngunefndar. Hér er verið að taka saman mikilvæga þætti. Frumvarpið felur líka í sér lögfestingu fjögurra tilskipana Evrópuþingsins og ráðsins. Það er ljóst að mikil samstaða og skilningur er á mikilvægi þessa frumvarps. Þó er fyrirvari sem ég leyfi mér að setja við frumvarpið og ógreinileg atriði sem lúta að viðmóti gagnvart sveitarfélögum og ég mun reyna að gera grein fyrir því í stuttu máli.

Það verður ekki séð með greinilegum hætti og með ásættanlegu móti að tekið sé mið af þeim breytingum og þeim kostnaðarumsvifum sem þetta átak hefur í för með sér, a.m.k. til skemmri tíma, aðallega þó fyrir sveitarfélögin, en gert er ráð fyrir að lögin taki gildi í ársbyrjun 2023. Ég nefndi átak. Þetta er auðvitað ekki átak, þetta er sýn, þetta er gríðarlegt verkefni sem við erum að takast á við öll sem eitt, hvert einasta mannsbarn. Það verður ekki aftur snúið, þetta er för sem halda mun áfram inn í framtíðina og undir það þurfum við að búa okkur með aukinni upplýsingu, með fræðslu, með kynningu og umhverfismeðvitund.

Viðurkennt er í nefndarálitinu, sem meiri hlutinn í umhverfis- og samgöngunefnd stendur að, að sorphirða í mörgum þeirra sveitarfélaga sem samanstanda af ólíkum svæðum, þéttbýli, sveitunum, dreifbýlinu og frístundasvæðum, þar sem kostnaður er þegar umtalsverður og aukin gæði og gát í sorphirðu, muni auka kostnaðarumfangið enn frekar og kalla á meiri uppbyggingu innviða, rekstur þeirra og aðstöðu, sem falli á sveitarfélögin og þar með á íbúana. Bráðabirgðaákvæði sem lögð eru til að verði lögfest duga alls ekki til að bæta hér úr ein og sér. Búa verður miklu betur um og hnýta baggana fastari hnútum. Forgangsatriði er að breytingar þær sem frumvarpið boðar verði kostnaðarmetnar með ítarlegum og gegnsæjum hætti með tilliti til aukinna útgjalda sveitarfélaga vegna málaflokksins. Nauðsynlegt er að þeim kostnaðarauka sem boðaðar breytingar munu valda verði mætt með skilgreindum hætti. Mínir fyrirvarar lúta fyrst og fremst að því að sveitarfélögunum sé gert það kleift að taka með góðu móti þátt í þeim miklu umbótum sem við þurfum að fara í, þessu mikla og stóra umbótaverkefni.

Herra forseti. Úrvinnslusjóður gegnir mikilvægu hlutverki við meðhöndlun úrgangs. Við köllum það að sjóðurinn beiti hagrænum hvötum til að koma upp skilvirku fyrirkomulagi á úrvinnslu úrgangs. Í nefndinni var talsvert rætt um þennan þátt, hvernig að þessu væri staðið og um nauðsyn þess að einnig og ekki síður væri horft til vistferilskostnaðar og umhverfislegra áhrifa við innleiðingu þessara svokölluðu hagrænu hvata. Jafnvel þó að það geti verið hagkvæmara í krónum talið að flytja úrgang úr landi til endurvinnslu er það ekki alltaf umhverfislega hagkvæmast, auk þess sem gengið hefur illa að rekja raunverulega ráðstöfun þess úrgangs sem fluttur er utan til meðhöndlunar. Einnig er hnykkt á því í nefndarálitinu að hvatt sé til þess að gengið sé úr skugga um að verið sé að vinna úrganginn með umhverfisvænum hætti hvert sem hann svo fer, hver svo sem örlög úrgangsins verða. Það er líka hvatt til þess í nefndarálitinu að nýta aðstæður hérlendis til endurvinnslu og styrkja með öllum ráðum uppbyggingu og ýta undir alla þá hvata sem flýtt geta því að hringrásarhagkerfið komist á fullan skrið á Íslandi.

Herra forseti. Það er ákveðin kaldhæðni fólgin í því ef Úrvinnslusjóður horfir eingöngu til fjárhagslegra hagrænna hvata en ekki til þeirra umhverfislegu þar sem tilgangur Úrvinnslusjóðs er auðvitað að styðja við aukna endurvinnslu og umhverfisvitund. Það er auðvitað krafa okkar að horft sé með ábyrgð alla leið í þessum efnum. Nærtækt dæmi um þetta er stórfelldur útflutningur á heyrúlluplasti, það er jafnvel urðun á því á ákveðnum landsvæðum á meðan við eigum glæsilegt nýsköpunarfyrirtæki í Hveragerði sem er sennilega einstakt á veraldarvísu þar sem við nýtum jarðvarma í enn eitt uppbyggilegt verkefni. Það fyrirtæki vinnur á mjög skertum afköstum þar sem við hnjótum um kerfislægar hindranir til að flytja plastið heim í hlað til þess. Hvað með margumtalaðan stuðning við nýsköpun í landinu? Og þá vakna nokkrar spurningar. Nýsköpun er lykilorðið í samfélagi dagsins. Úrvinnslusjóður hefur til ráðstöfunar stórar fjárupphæðir til sinnar vinnu. Við erum sammála um hin stóru markmið í umhverfismálum. Samt sem áður og engu að síður sendum við úr landi og borgum undir mörg hundruð tonn af rusli og plasti á ári. Núverandi kerfi ræður ekki við að koma því til endurvinnslu innan lands sem er mögulegt.

Herra forseti. Þarna fara ekki saman orð og gjörðir, yfirlýsingar um markmið og framkvæmd og svo að ég noti nú margtuggið orðalag: Þarna fer ekki saman hljóð og mynd. Tillögur Samfylkingarinnar í þessu efni eru skýrar og þjóna allar því markmiði að fjölga störfum, auka græna verðmætasköpun, bæta heilsu og öryggi fólksins í landinu og auka umhverfisvitundina. Á þessu er hnykkt í okkar ágæta plaggi Ábyrga leiðin úr atvinnukreppu til grænnar framtíðar, sem ég hvet alla þingmenn og sem flesta landsmenn til að lesa.

Herra forseti. Nefndin tekur reyndar á þessu atriði varðandi vinnslu og úrvinnslu á úrgangi innan lands með nokkuð afgerandi hætti. Hún leggur ríka áherslu á að Úrvinnslusjóður skuli stuðla með virkum hætti að hringrásarkerfinu á Íslandi í starfsemi sinni en ekki líta fyrst og fremst til fjárhagslegrar hagkvæmni og að tiltekin atriði í þessum efnum taki þegar gildi. Það eru tilmæli umhverfis- og samgöngunefndar. Markmiðin með frumvarpinu eru skýr og horfa til framtíðar og ábyrgðar okkar gagnvart umhverfinu.

Legg þú á djúpið og æðrast ei, sagði sálmaskáldið. Það er engin goðgá að tala um djúpið í þessu sambandi því að það er mikil sigling og mikið ferðalag sem við erum að leggja upp í. Djúpið er víðfeðmt, bæði á víddina og á dýptina. Þetta er ferð þar sem við höldum sífellt áfram og stundum lendum við í ólgusjó, það er alveg ljóst. En í ferðinni munu allir farþegar styrkjast og eflast og læra og verða enn betri til að skilja að úrgangur er fyrst og fremst hráefni. Hvernig við ætlum að hrinda þessu í framkvæmd, það er ekki alveg ljóst þannig að vel fari á. Sveitarfélög í landinu eru talsvert misvel sett hvað þetta varðar og kalla eftir nánari upplýsingum um útfærslur og á þau verkfæri og möguleika sem nauðsynlegir eru og verða ekki aðgreindir eða um flúnir en það er m.a. kostnaður. Undir aukinn kostnað vegna þessara þátta verðum við að búa okkur öll sem eitt. Þetta snertir okkur öll. Þetta snertir hvert mannsbarn á Íslandi og hvert mannsbarn í heiminum.

Herra forseti. Að lokum leyfi ég mér að þakka nefndarmönnum fyrir afburðagott samstarf við vinnslu þessa stóra samfélagslega máls sem varðar okkur öll í nútíð og framtíð. Ekki síst þakka ég framsögumanni, hv. þm. Ara Trausta Guðmundssyni, sem af þekkingu og innsæi varðaði leiðina í þessari vinnu og að því marki sem við erum nú komin.