151. löggjafarþing — 112. fundur,  11. júní 2021.

sveitarstjórnarlög og tekjustofnar sveitarfélaga.

378. mál
[23:39]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Herra forseti. Ég leyfi mér að þakka hv. framsögumanni umhverfis- og samgöngunefndar, Líneik Önnu Sævarsdóttur, fyrir að flytja okkur þetta og gera ágæta grein fyrir nefndaráliti. Þetta nefndarálit og þetta frumvarp kemur fram í framhaldi af þingsályktun um sama efni, um stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019–2033 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2019–2023, sem ráðherra mælti fyrir á síðasta þingi, þingsályktun nr. 21. Þetta frumvarp er væntanlega hugsað sem skref til að framfylgja þeim markmiðum sem þingsályktunin felur í sér. Um meginefni frumvarpsins er enginn ágreiningur og reyndar tel ég að um efnið sé góð samstaða í umhverfis- og samgöngunefnd, það að tryggja getu sveitarfélaga til að veita lögbundna og góða, áreiðanlega þjónustu í þágu íbúanna.

Hins vegar er efi í okkar huga í þingflokki Samfylkingarinnar um það undanhald sem ráðherra hefur lagst í, bæði það sem snýr að ályktun Alþingis um þetta efni, þar sem segir svart á hvítu um markmið og áherslur að ekkert sveitarfélag skuli hafa færri íbúa en 1.000 innan tiltekins tímabils, og að í þessu frumvarpi sé líka slakað á þessum markmiðum og enn gefið eftir þrátt fyrir að landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga hafi áréttað og samþykkt bæði upphaflegt markmið þingsályktunartillögunnar og frumvarpsins í sinni fyrri mynd. Við hefðum kosið að ráðherra sýndi meiri staðfestu og einurð í því að hreyfa við sveitarstjórnarstiginu til eflingar og stækkunar. Ekki er sýnt að af þeim markmiðum verði með öflugum hætti á allra næstu árum en þó eru í deiglunni líklega tvennar sameiningar á landsvæðum.

Herra forseti. Fjöldi sveitarfélaga á Íslandi hefur verið breytilegur og tekið umtalsverðum stakkaskiptum í sögulegu samhengi. Árið 1910 voru 203 sveitarfélög í landinu en urðu flest á árunum 1948–1952, eða 229 talsins. Frá þeim tíma hefur sveitarfélögum fækkað um 160, úr 229 í 69 og líklega 68 eftir síðustu kosningar um nýliðna helgi. Eins og ég nefndi eru í deiglunni tvennar sameiningar á tveimur landsvæðum, sem verða væntanlega á þessu ári, þar sem sameinast annars vegar tvö sveitarfélög og hins vegar fjögur. Ríflega 54% sveitarfélaga, eða 39 sveitarfélög, hafa færri en 1.000 íbúa og fámennustu sveitarfélögin í dag eru með íbúafjölda á bilinu 42–93. Það fjölmennasta er hins vegar með ríflega 133.000 íbúa. Þetta er mikið bil og það er erfitt að hugsa sér að þessir aðilar geti veitt sambærilega þjónustu, jafnvel sambærilega lögbundna þjónustu. Sjö þessara sveitarfélaga hafa undir 100 íbúa og það þarf ekki miklar reiknikúnstir til að átta sig á því að svona lítil og fámenn sveitarfélög eiga í ljósi þeirra breytinga og þeirra krafna sem við gerum til samfélags örðugt með að halda velli og veita ýmislega lögboðna þjónustu, að ekki sé talað um fjölbreytta félagslega þjónustu, til ungra barna, unglinga, fjölskyldna, þeirra sem búa við fötlun og aldraðra. Þetta eru krefjandi verkefni þar sem þarf mikinn mannskap, faglegan kraft og fjármagn.

Herra forseti. Frumvarpið og kjarninn í innihaldi þess er mikilvægt umfjöllunarefni en það er síður en svo nýtt af nálinni. Það talar skýrri röddu til samtímans og aðstæðna sem við búum þegar við og ekki síður og kannski fyrst og fremst til framtíðarinnar. Það styður þau markmið að sveitarstjórnarstigið skuli vera öflugt, enda er það rauði þráðurinn að efla með öllu móti sveitarstjórnarstigið til að taka við fleiri og fleiri viðameiri verkefnum til úrlausnar í nærsamfélaginu. Það er fráleitt að halda því fram að þetta sé aðför að sveitarstjórnarstiginu. Það má segja, herra forseti, að breyttu breytanda, — svo að maður slái um sig með því orðalagi — að sú sýn sem viðhelst í þessu frumvarpi eins og það er eftir breytingu viðhaldist þó að bitið sé dálítið farið úr því. Enginn ágreiningur er um að ábyrgð, áherslur og mótun samfélagsþjónustu, að þeim þáttum sé best fyrir komið í heimabyggð, í nærsamfélaginu, að þeir séu skipulagðir þar og þróaðir í samræmi við þarfir íbúanna í samfélögunum. Það eru fleiri og fleiri þættir samfara þróun, tækni og kröfum hvarvetna, bæði tæknikröfur, rafrænir þættir og einn ræðumaður í kvöld kom að því að skýrslugerð og upplýsingagjöf væri litlu sveitarfélögunum önugt. Það er alveg rétt því að þessi litlu sveitarfélög þurfa að standa skil á ýmsum gögnum og upplýsingum því að þau styðjast í sínum rekstri að verulegu leyti við stuðning Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.

Þetta eru auðvitað staðreyndir lífsins hvað sem hverjum og einum finnst, hverjar svo sem tilfinningarnar eru sem eru hluti af viðfangsefninu. Þær skil ég vel og virði. Þótt viðhorf víða í sveitarfélögum séu jákvæð til þessa máls, til sameininga, til aukins samstarfs, þó að þau séu jákvæð til þeirra markmiða sem kynnt eru, þá eru vissulega skiptar skoðanir um efni frumvarpsins, einstaka þætti og áherslur. Þessi efi kemur aðallega fram meðal nokkurra minni sveitarfélaga. Stjórnir minni sveitarfélaga benda jafnvel á að almennt sé fjárhagsstaða minni sveitarfélaga betri en hinna stærri. Við heyrum raddir sem segja að vanfjármögnun ríkisins á stórum málaflokkum verði ekki leyst með sameiningu smárra sveitarfélaga, að vandamál á einum stað leysist ekki með sameiningu hér og þar, að 1 kílómetri verði áfram 1.000 metrar þótt sveitarfélög séu sameinuð og að sameiningar leysi ekki þjónustuveitanda eða neikvæða byggðaþróun í dreifbýli einar og sér. Þetta er vissulega rétt. Samgönguþátturinn er gríðarlega mikilvægur þáttur, svo að dæmi sé tekið, og hið opinbera, ríkisvaldið, ætti að mínu áliti að beita sér miklu meira með beinum hætti og hvetja til sameininga í tengslum við stórfelldar samgöngubætur. Nokkur tækifæri hafa gefist til þess en þau hafa verið vannýtt að mínu áliti. Í samtölum við sveitarstjórnarfólk og fjölda aðila, m.a. í gestakomum í umhverfis- og samgöngunefnd, er líka bent á að krafan um 1.000 íbúa lágmark breyti ekki öllu, það sé bitamunur en ekki fjár, miklu nær væri að fjölga úr 250 að lágmarki upp í 1.000. Miklu nær væri þá að hugsa stærra og hugsa í 5.000 íbúa lágmarkinu eða jafnvel 8.000 og að samstarf sveitarfélaga verði að byggjast á fjárhagslegum, félagslegum og landfræðilegum forsendum, að það þurfi að vera á landfræðilegum forsendum en ekki að byggja þetta eingöngu á höfðatölu. Í þessu sambandi er rétt að nefna að víða í sveitarfélögunum er þetta umfjöllunarefnið og því tengjast sterkar tilfinningar. Eins og ég nefndi áðan er það bara þannig að nokkur sveitarfélög haga rekstri sínum með þeim hætti að það næst allvel utan um grunnreksturinn en það tekst hins vegar fyrst og fremst vegna drjúgra framlaga úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga sem er raunar sérstakt áherslumál. Síðan má geta þess líka að minni sveitarfélögin hafa gengið til samstarfs við nágrannasveitarfélög, stærri sveitarfélög, og þau hafa myndað með sér þjónustusamlög um ákveðna þætti en þar er nú víða pottur brotinn. Minni sveitarfélögunum finnst hin stærri fara dálítið geyst og leiða málið og oft á forsendum hinna stærri.

Herra forseti. Hér undir lokin vil ég nefna eitt atriði sem mér finnst þurfa að skýra mun betur og skilgreina í samskiptum ríkis og sveitarfélaga. Í breytingartillögu meiri hlutans sem hv. þm. Andrés Ingi Jónsson nefndi að væri viðamikil, og er auðvitað kjarninn í þessu frumvarpi, er lögð til viðbót við 4. gr. sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Í því skyni að auka sjálfbærni sveitarfélaga og tryggja getu þeirra til að annast lögbundin verkefni skal stefna að því að lágmarksíbúafjöldi sveitarfélags sé ekki undir 1.000.“

Nú er stefnt að þessu, það er farin hin silkimjúka leið til nálgunar en ekki staðið í lappirnar eins og við hefðum kosið. Þetta hugtak ,sjálfbærni, það er ástæða til að velta fyrir sér innihaldi þess í þessu samhengi. Hver er merking þess að sveitarfélag sé sjálfbært? Við spurðum þeirrar spurningar nokkrum sinnum í umhverfis- og samgöngunefnd með gestum en ég tel að ég hafi ekki fengið svar við því hvenær sveitarfélag er sjálfbært. Er það sjálfbært þegar það fær engar greiðslur úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga eða þegar það fær 10, 20, 30 eða 40% af tekjum sínum frá jöfnunarsjóði? Í greinargerð með þingsályktuninni sem nefnd var í upphafi, um stefnumótandi áætlun sveitarfélaga fyrir árin 2019–2033, er sérstakur kafli um þetta hugtak, sjálfbærni. Við samningu hennar virðist hafa verið gengið út frá því að sjálfbærni segði til um getu sveitarfélagsins til að viðhalda sér á uppbyggilegan hátt, hvort sem er fjárhagslega, félagslega eða umhverfislega. Þetta eru auðvitað kunnugleg hugtök í umræðunni um sjálfbærni. En hvað er uppbyggilegur háttur? Herra forseti. Spurningunni um sjálfbærni sveitarfélaga, skilgreiningu á því hugtaki, virðist kastað á dreif í þessu frumvarpi, t.d. hlutdeild Jöfnunarsjóðs, og það er ekki gott. Umræða um sjálfbærni skiptir auðvitað miklu máli þegar unnið er að mótun stefnu fyrir sveitarstjórnarstigið og það til langs tíma.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta öllu lengra nú en ég vil þó áður en ég lýk máli mínu þakka framsögumanni nefndarálitsins, hv. þm. Líneik Önnu Sævarsdóttur, fyrir að halda utan um málið af sinni mildilegu festu og samnefndarmönnum mínum fyrir gott starf við vinnslu þessa máls. Hér hefði að mínu áliti átt að stíga fastar til jarðar. Hér er þó stikað í áttina en skrefið hefði þurft að vera ákveðnara og stærra.