151. löggjafarþing — 112. fundur,  12. júní 2021.

kosningalög.

339. mál
[01:36]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir yfirgripsmikla ræðu um þetta mikilvæga mál, breytingar á kosningalöggjöfinni. Ég tel mörg atriði tvímælalaust vera til bóta enda var lögð mikil vinna í þetta. Það voru sjónarmið þvert á flokka og síðan kom þetta inn til þingsins.

Ég ætla ekki að spyrja hv. þingmann um nákvæmlega það sem stendur í frumvarpinu heldur miklu frekar aðeins um vinnuna í nefndinni. Við í Viðreisn erum, ásamt fulltrúa frá Samfylkingu og Pírötum, á breytingartillögu sem tengist jöfnu vægi atkvæða. Það er gríðarlega mikilvægt mál. Það getur verið að maður sé hálfsvekktur yfir því að hér sé þing að fara í hvíld í nokkurn tíma, fram yfir kosningar, og við höfum ekki náð að afgreiða nokkur ákvæði til breytinga á stjórnarskránni. Í þeirri vinnu allri var gríðarlega mikið unnið, fullt af fínni vinnu. Ég saknaði þess sérstaklega að skýr skilaboð þjóðarinnar í gegnum tíðina, en ekki síst í rökræðukönnun, bæði á landsbyggðinni og á suðvesturhorninu, kæmu fram, þ.e. að þjóðin sé fylgjandi því að jafna vægi atkvæða. Það er svo mikilvægt atriði til að vinda ofan af ákveðinni sérhagsmunagæslu í landinu. Þetta er grunnurinn að ákveðnu valdakerfi, þetta fyrirkomulag, ójafnt vægi atkvæða sem hefur ekkert með hagsmuni tiltekinna svæða að gera heldur bara það hvernig grunnstrúktúrinn í þessu samfélagi og valdakerfi er. Mig langar því að spyrja: Hvaða umræða átti sér stað innan nefndarinnar varðandi jafnt vægi atkvæða? Var farið yfir það? Getur hv. þingmaður sagt frá því sem átti sér stað í nefndinni hvað það varðar?