151. löggjafarþing — 112. fundur,  12. júní 2021.

kosningalög.

339. mál
[02:12]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mikið. Mig langar bara rétt til að minnast á að fram hefur farið gríðarlega mikil vinna í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd um þetta mál. Ég vil nota tækifærið og þakka öllum nefndarmönnum og sérstaklega formanninum sem hefur lagt sig fram um að ná góðri niðurstöðu. Málið hefur tekið þó nokkuð miklum breytingum og það er ekki síst fyrir það að Miðflokkurinn hefur barist mjög fyrir nokkrum breytingum á frumvarpinu ásamt fleirum. Víst er að málið hefur batnað, frumvarpið hefur batnað. Það er ekki fullkomið, það er ekki orðið eins og maður hefði kannski óskað sér, en búið er að sníða helstu skavanka af því og lagfæra það allmikið. Svo að ég nefni dæmi þá eru yfirkjörstjórnir, sem menn ætluðu nánast að leggja af, þarna inni enn og talningarstaðir og fleira sem við breyttum í meðförum nefndarinnar. Ég tel að málið sé stórum betra eftir.

Ég vil að hluta taka undir með kollega mínum og félaga, hv. þm. Karli Gauta Hjaltasyni, sem talaði um aðstoðina hér áðan, af þeirri ástæðu einni að við viljum koma í veg fyrir að fatlaðir eigi á hættu að atkvæði þeirra verði misnotað og að þeir geti ekki komið skoðun sinni á framfæri af eigin vilja og hvötum. Það er kannski það sem fyrir okkur vakti, þegar við vorum að gagnrýna þetta atriði í frumvarpinu, alls ekki að draga úr rétti þessa hóps nema síður sé, alls ekki að setja hann niður, alls ekki að gera lítið úr honum, heldur einungis að reyna að koma í veg fyrir að þátttaka þessa hóps í kosningum verði misnotuð eða brengluð á einhvern hátt. Það náðist ekki fram í þessari atrennu, herra forseti, að laga þetta eða leiðrétta. En margt annað hefur lagast. Við Miðflokksfólk börðumst t.d. hart fyrir því að póstkosningar yrðu ekki inni í frumvarpinu og það náðist fram fyrir elju og seiglu, ekki síst vegna þess að formaður nefndarinnar er lausnamiðaður og vildi reyna að gera gott úr þessu máli.

Það er nú þannig, herra forseti, að ef menn eru svona mátulega vonsviknir, allir, er skásta niðurstaðan hugsanlega fengin, það er mögulegt. Ég vil trúa því að í þessu tilfelli, með þetta frumvarp, sé skásta niðurstaðan fengin. Hún er ekki fullkomin. Hún er örugglega það skásta sem við getum fengið fram að þessu sinni. Ég vænti þess að á morgun munum við styðja þetta mál og víst er að það einfaldar þetta mjög að búið er að setja fjóra lagabálka í einn lagabálk og það tekur til allra kosninga sem fara fram, hvort sem það eru kosningar til Alþingis, sveitarstjórna eða val á forseta Íslands. Það er bót að því.

Það er að vísu líka annar skavanki sem við hefðum viljað sjá öðruvísi, þ.e. að stofnun skuli gerð úr landskjörstjórn. Stofnanir vilja bólgna út og stækka og verða dýrari í framkvæmd og það er líka visst áhyggjuefni. En svo er það náttúrlega annað að lagasetning eins og þessi er mannanna verk og ef reynslan verður ekki góð getum við að sjálfsögðu breytt þessum lögum. Ég er frekar íhaldssamur í því að breyta lögum og ég vil að lagasmíð sé vönduð og að hún eigi að standast tímans tönn eins mikið og eins lengi og hægt er. En við getum horft á þessa lagasmíð að fenginni reynslu. Þessi lög byrja væntanlega fyrst að virka við sveitarstjórnarkosningar eftir eitt ár og síðan við aðrar alþingiskosningar hér í frá og þá mun koma nokkur reynsla á það hvernig þetta nýja kerfi reynist. Vonandi verður það til farsældar fyrir alla og verður til þess að gera framkvæmd kosninga öruggari og skilvirkari og þannig að enginn vafi sé á framkvæmd þeirra.

Herra forseti. Ég ætlaði ekki að lengja þennan fund heldur bara lýsa því yfir að það er ánægjulegt að þessi lending skyldi nást í þessu máli fyrir þrautseigju, sérstaklega fyrir þrautseigju okkar Miðflokksmanna, og fyrir samstarfsvilja formanns stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, sem ég þakka fyrir.