151. löggjafarþing — 113. fundur,  12. júní 2021.

Hálendisþjóðgarður.

369. mál
[10:32]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Kolbeinn Óttarsson Proppé) (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég verð að játa að ég skil ekki alveg hvernig ætti að vera búið um mál í stjórnarsáttmála öðruvísi en að fagráðherra útfæri þá umgjörð. Ég veit ekki alveg hvernig hv. þingmaður sér fyrir sér að mál í stjórnarsáttmála séu unnin á annan hátt. Þannig hefur þetta verið um öll mál í stjórnarsáttmála, eðlilega. Um það er samið að þetta og hitt skuli gert. Það var til dæmis samið um að breyta skattkerfinu. Síðan er það fagráðherrann sem fer í það að koma á nýju lágtekjuþrepi. Það er að sjálfsögðu ekki neitt sem stjórnarflokkarnir vinna allir í saman, þingflokkarnir. Ég veit ekki alveg hvernig hv. þingmaður sér þetta fyrir sér öðruvísi.

Það er nú svo langt síðan ég hélt á ávísanahefti að ég verð að játa að ég man ekki alveg hvernig sú tilfinning var að vera með óútfylltan tékka eða hvort ég hef nokkru sinni haldið á slíku. Ég þori ekki alveg að fara með það. Það er ekki líkingin sem kemur mér í huga til að lýsa tilfinningu minni. Ég lýsti því hér áðan að ég hefði orðið fyrir vonbrigðum með að þetta mál hefði ekki náð í gegn. Ég hygg, hvað varðar fyrirvara annarra flokka, að best sé að spyrja þá. Ég sat ekki við það borð að semja þennan sáttmála. Ég var ekki á þingflokksfundum hinna flokkanna er þeir settu sína fyrirvara. Ég sá suma þeirra. Ég veit ekki hvernig ég get orðað það öðruvísi en það var enginn fyrirvari af hálfu Vinstri grænna.