151. löggjafarþing — 113. fundur,  12. júní 2021.

loftslagsmál.

711. mál
[14:24]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Það er sérstakt við þetta mál að markmið þess er að breyta markmiðum laga níu árum eftir að lögin voru sett án þess að annað í lögunum taki á breytingunum. Í greinargerð með þessu þingmáli og í nefndaráliti kemur glögglega fram hversu óljóst þetta fyrirbæri, kolefnishlutleysi, er. Með því virðist vera átt við losun sem er á ábyrgð stjórnvalda en einnig er vikið að annarri losun eins og t.d. frá framræstu landi. Ég velti því fyrir mér hvort ekki hefði verið heppilegra að skilgreina sæmilega hvað kolefnishlutleysi þýðir áður en samþykkt er stefna að því marki. Það stendur nefnilega eftir þetta mál hérna og það er fullkomlega óljóst hvert það markmið leiðir okkur sem þingið ætlar að samþykkja með þessu þingmáli.