151. löggjafarþing — 113. fundur,  12. júní 2021.

loftslagsmál.

711. mál
[14:26]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Hér er lagt til að lögfesta ágæta línu úr samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um að stefnt skuli að kolefnishlutleysi 2040. Það er gott að hafa þetta í lögum til að vita hvert á að stefna en auðvitað hefði verið eðlilegt að lögfesta þetta á fyrsta starfsári stjórnarinnar frekar en því síðasta, sérstaklega í ljósi þess að árið 2040 er ekki lengur það metnaðarfulla ár sem fólki þótti þegar stefnan var sett á 2017. Finnland miðar t.d. við að ná kolefnishlutleysi 2035 og Noregur 2030. Það er því verk fyrir höndum fyrir næstu ríkisstjórn að sýna meiri metnað af því að þessi ríkisstjórn er nú þegar að lögfesta úreltan metnað. Ég minni svo á breytingartillögu mína við þetta mál um það að festa í lög 55% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda fyrir 2030 sem er ekki það sem vísindin kalla á að þurfi að gera heldur það sem ríkisstjórnin segist vera að gera. (Forseti hringir.) Það er aftur yfirlýst stefna ríkisstjórnarinnar og væri eðlilegt að sjá það í lögum til að það væri ljóst að það væri í alvöru verið að stefna þangað.