151. löggjafarþing — 113. fundur,  12. júní 2021.

slysatryggingar almannatrygginga.

424. mál
[15:37]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Slökkviliðsmenn eru útsettir fyrir starfsumhverfi sem vísindalega hefur verið sannað að eykur líkur á heilsubresti. Tíðni krabbameins meðal slökkviliðsmanna hefur aukist mjög á undanförnum árum og margar rannsóknir hafa verið gerðar sem benda til þess að tengsl séu á milli starfs slökkviliðsmanna og aukinnar tíðni krabbameins hjá þeim. Þrátt fyrir miklar forvarnir og betri útbúnað slökkviliðsmanna við slökkvistörf eiga þeir aldrei möguleika á að verja sig fullkomlega gegn krabbameinsvaldandi efnum í reyk sem myndast við bruna. Það er löngu tímabært að sjúkdómar á borð við krabbamein verði viðurkenndir hjá slökkviliðsmönnum. Hér er lagt til í breytingartillögu að í reglugerð verði tilgreint hvaða gerðir krabbameina skuli teljast bótaskyldir atvinnusjúkdómar hjá slökkviliðsmönnum. Ég segi já.