151. löggjafarþing — 113. fundur,  12. júní 2021.

Hálendisþjóðgarður.

369. mál
[20:48]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. umhverfis- og samgöngunefnd fyrir vinnu við frumvarpið. Það skyldi engan undra að ég hefði viljað sjá frumvarp mitt um hálendisþjóðgarð verða að lögum nú í vor. En í niðurstöðunni felast samt sem áður skýr skilaboð Alþingis til ríkisstjórnar og ráðherra um að vinna áfram að málinu og leggja fram frumvarp um hálendisþjóðgarð að nýju. Það eru mikilvæg skilaboð Alþingis til framkvæmdarvaldsins. Nú er verkefnið að sameinast um að ná meiri sátt um málið og koma hálendisþjóðgarði á koppinn á næsta kjörtímabili. Af hverju? Vegna þess að hálendisþjóðgarður er fyrir náttúruna okkar, er fyrir víðernin okkar, er fyrir okkur, fólkið í samtímanum, en síðast en ekki síst fyrir framtíðina.