151. löggjafarþing — 119. fundur,  6. júlí 2021.

staða fórnarlamba kynferðisofbeldis.

[13:26]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Það er kannski tvennt sem mér finnst mikilvægt að ræða í þessu samhengi. Þegar hv. þingmaður nefnir hér sérstaklega kynferðisbrot þá var í upphafi þessa kjörtímabils strax farið í aðgerðir til að styðja við rannsókn og meðferð kynferðisbrota hjá hinu opinbera. Það tekur að sjálfsögðu tíma að bera árangur. En bæði var farið í það að efla löggæsluna og sérstakt viðbótarfjármagn var veitt til að bæta við stöðugildum hjá lögreglunni til að öll lögregluembætti landsins væru í stakk búin til að sinna rannsókn og meðferð kynferðisbrota. Lagðir voru til sérstakir fjármunir í verklagsreglur og rannsóknarbúnað. Embætti héraðssaksóknara var líka styrkt um tvö ný stöðugildi til að efla meðferð kynferðisbrota. Sömuleiðis var ráðist í að styrkja mennta- og starfsþróunarsetur lögregluembætti ríkissaksóknara út frá þessum málaflokki. Þar fyrir utan höfum við verið að vinna að forvörnum til að koma í veg fyrir þá meinsemd sem kynferðisbrot eru í samfélagi okkar og hv. þingmaður tók þátt í því, ásamt öllum öðrum hv. þingmönnum, að samþykkja hér mjög metnaðarfulla forvarnaáætlun til næstu ára inn í skólakerfið.

Hér var til meðferðar á síðasta þingi frumvarp dómsmálaráðherra til að breyta lögum um meðferð sakamála til að bæta réttarstöðu brotaþola, þannig að dómsmálaráðherra hefur beitt sér í þessum málum allt kjörtímabilið sem og aðrir ráðherrar að sviði menntamála, félagsmála og heilbrigðismála, vegna þess að þetta er málaflokkur sem þarf að bæta.

En hvað varðar síðan málflutning á samfélagsmiðlum, sem er það sem hv. þingmaður vísar hér til, þá má spyrja sig hvort hann væri minni — vissulega sprettur hann að einhverju leyti upp vegna þess að það hefur verið ákveðin vöntun í kerfinu okkar, en um leið hafa tæknibreytingar orðið til þess að umræðan hefur auðvitað tekið stakkaskiptum, herra forseti.