151. löggjafarþing — 119. fundur,  6. júlí 2021.

staða fórnarlamba kynferðisofbeldis.

[13:28]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir svarið. Í raun og veru liggur þetta í svarinu. Þegar verið er að telja upp allt það góða sem hefur verið gert til þess að reyna að taka á og aðstoða fólkið sem lendir í þeim hörmungum að vera beitt kynferðislegu ofbeldi, líkamlegu ofbeldi eða hvaða ofbeldi öðru sem er, hefur greinilega ekki tekist betur en svo að við erum að horfa upp á að einstaklingar eru hreinlega teknir úr umferð í samfélaginu. Það er staðreynd. Þeir eru teknir úr umferð í samfélaginu án þess að við getum komið yfir þá gildandi rétti og dæmt þá fyrir þau meintu brot sem þeim er gefið að sök að hafa framið. Burt séð frá því að við búum við samfélagsmiðla og annað slíkt breytir það ekki þeirri staðreynd að einhvers staðar hljótum við að geta búið til reglur sem taka utan um þetta (Forseti hringir.) þannig að t.d. þeir sem ásaka einstaklingana (Forseti hringir.) verði að standa fyrir því, verði t.d. að segja það. Mér finnst ekki hægt í réttarríki (Forseti hringir.) að við tökum fólk hreinlega úr umferð án dóms og laga. Þannig er réttarríki okkar ekki byggt upp (Forseti hringir.) og var aldrei markmiðið með því.