152. löggjafarþing — þingsetningarfundur

rannsókn kjörbréfa.

[13:34]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Það eru tvö atriði sem mig langar til að spyrja hv. þingmann út í varðandi framsöguræðuna: Annars vegar segir hv. þm. Birgir Ármannsson að þessi nefndarhluti telji sig ekki hafa lagaheimild til að ógilda kosninguna af því að sýna verði fram á að gallinn hafi haft áhrif. Mig langar til að benda á almennt séð að rétt fyrir framan þau orð stendur „sem ætla má að hafi haft áhrif“, ekki að sannað sé að gallinn hafi haft áhrif heldur að ætla megi. Við erum með þó nokkur fordæmi í dómum Hæstaréttar þar sem það eru atkvæði eða gallar sem ekki er hægt að sýna fram á með beinum hætti að breyti niðurstöðunni en samt eru kosningar dæmdar ógildar; þá vísa ég t.d. í Borgarbyggð árið 2002.

Hitt atriðið sem mig langar til að vekja athygli á er þegar meiri hlutinn fjallar hér um að oddviti hafi ekki í þeim skilningi verið einn á talningarsvæðinu. Þarna er gerður greinarmunur á þessum sal sem er þarna; það er annars vegar fremra svæði þar sem umboðsmenn voru og þess háttar, sem var síðan stúkað af með þiljum sem lágu alveg frá gólfi upp í loft og svo með borðum við dyr þarna fyrir miðju. Síðan var talningarsvæðið fyrir innan. Ég verð að gera athugasemd við það að ég held að sannanlega sé hægt að segja að oddviti hafi verið einn á talningarsvæðinu á þeim rúma hálftíma sem um getur í nefndaráliti meiri hluta, ekki í salnum í heild sinni, þ.e. ef fremra svæðið er tekið með, heldur á talningarsvæðinu sem fullyrt er að hann hafi ekki verið einn á í nefndaráliti meiri hluta. Ég vil gera athugasemd við það.