152. löggjafarþing — þingsetningarfundur

rannsókn kjörbréfa.

[14:08]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þó að við stöndum hér á ákveðinni ögurstundu langar mig að segja: Það er gott að vera komin aftur, ég er glöð að við erum komin aftur og ég treysti því að við vinnum farsællega í sambandi við það sem okkur er treyst til að gera hér. Mig langar til að beina fyrirspurn að hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur. Hún vísar í að í boði frá landskjörstjórn hverfist það um að þau hafi ekki fengið skýrslu frá yfirkjörstjórn og tryggingu fyrir því að kjörgögnin hafi verið trygg. Telur hv. þingmaður að það sé á valdi landskjörstjórnar eða Alþingis að úrskurða um gildi kosninga? Var þetta bara ábending landskjörstjórnar eða eitthvað það alvarlegt að ætla megi að landskjörstjórn, ef ég skil það rétt, sé hreinlega að vísa í að þarna hafi hugsanlega eitthvað hræðilegt verið um að vera sem ætla megi að hafi haft áhrif á niðurstöðu kosninganna og vilja kjósenda í Norðvesturkjördæmi?

Mig langar til að vísa í 3. mgr. 120. gr. kosningalaga sem segir, með leyfi forseta:

„Ef þeir gallar eru á framboði eða kosningu þingmanns sem ætla má að hafi haft áhrif á úrslit kosningarinnar úrskurðar Alþingi kosningu hans ógilda og einnig án þess ef þingmaðurinn sjálfur, umboðsmenn hans eða meðmælendur hafa vísvitandi átt sök á …“

Ég er bara hætt í tilvitnuninni. Þetta var nóg, ég þarf ekki meira.

Við fengum fyrir nefndina, eins og hv. þingmaður man, fyrrverandi hæstaréttardómara, Eirík Tómasson, sem ég skildi þannig að hann tæki af allan vafa um að gildandi réttur væri nákvæmlega það sem löggjafanum bæri skylda til að fylgja og fara eftir. Og ef löggjafinn gæti ekki sýnt fram á að gildandi réttur væri gallaður (Forseti hringir.) þá yrðum við að fylgja honum. Ég spyr því hv. þingmann: Hvað er að?