152. löggjafarþing — þingsetningarfundur

rannsókn kjörbréfa.

[14:11]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég taldi þrjár spurningar. Þá fyrstu hvort einhver vafi væri á því að þingmenn úrskurðuðu um kjörbréfið. Nei, það er enginn vafi á því. Það stendur og er í stjórnarskrá lýðveldisins. Í annan stað er spurt hvað landskjörstjórn hafi meint með bókuninni. Ég veit ekki til þess að landskjörstjórn hafi áður sent kjörbréfanefnd bókun með útgefnum kjörbréfum. Ég skil það og skildi það á máli fulltrúa í landskjörstjórn, þegar þau mættu fyrir undirbúningsnefndina, að þetta væri óvenjulegt vegna þess að málið væri alvarlegt. Hv. þingmaður spyr hvað sé að. Við hefðum kannski ekki setið saman í tvo mánuði ef allt hefði verið klippt og skorið og með felldu, framkvæmdin, formið, flokkunin og talningin og allt það sem fram fór í Norðvesturkjördæmi. Það er auðvitað það sem er að. En það sem er alvarlegast í málinu, langalvarlegast, er að við getum ekki tekið af allan vafa um hvaða afleiðingar varsla kjörgagna hafði.