152. löggjafarþing — þingsetningarfundur

rannsókn kjörbréfa.

[16:07]
Horfa

Diljá Mist Einarsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Það hefur augljósa kosti að vera síðust í röðinni á eftir ágætum samnefndarmönnum mínum. Ég gat passað mig á því að hrapa ekki hérna um pallinn og svo mun ég gæta mín sérstaklega á því að blóta ekki í pontu. Ég hefði ekki getað séð það fyrir að þetta yrði viðfangsefni fyrstu ræðu minnar hér á virðulegu Alþingi. Mig hefði heldur ekki órað fyrir umfangi þeirra vandasömu vinnu sem kjörbréfanefnd hefur innt af hendi undanfarnar vikur og mánuði. Þar er enginn nefndarmaður undanskilinn. En það er e.t.v. viðeigandi að fyrstu orð mín í pontu snúi að þeirri vinnu, vinnu við að undirbúa og rannsaka stoðir þeirra kosninga sem leiddu okkur hingað, við að treysta úrslit kosninga og að lýðræðislegur vilji kjósenda hafi verið virtur. Hér hefur þegar verið farið yfir niðurstöður meiri hluta kjörbréfanefndar og að við teljum að með henni sé vilji kjósenda fram leiddur. Þótt þingmenn séu samkvæmt stjórnarskrá eingöngu bundnir við sannfæringu sína er auðvitað gerð sú krafa til þeirra að þeir fari eftir lögum, ekki eigin hugmyndum eða skoðunum á lögum. Niðurstaða nefndarhlutans er afrakstur umfangsmikillar og vandaðrar vinnu nefndarinnar og í samræmi við skilyrði kosningalaga. Þessi niðurstaða er ekki auðveldasta eða besta niðurstaðan samkvæmt hinum eða þessum mælikvörðum heldur einfaldlega rétta niðurstaðan lögum samkvæmt. Eins og hv. þm. Björn Leví Gunnarsson hefur bent á er ekki ólíklegt að önnur niðurstaða, og þar af leiðandi uppkosning, væri ákjósanlegri niðurstaða fyrir Sjálfstæðisflokkinn. En það kemur ekki til greina af hálfu okkar þingmanna flokksins í nefndinni að taka inn í þetta mat önnur sjónarmið en þau sem okkur ber lögum samkvæmt. Við skorumst ekki undan þeirri ábyrgð og við skorumst ekki undan ábyrgð á þeirri vinnu sem nefndin skilaði af sér.

Að því sögðu þykir mér nauðsynlegt að árétta hvað mér þótti miður að fara yfir eins gáleysislega framkvæmd á kosningum og var viðhöfð í Norðvesturkjördæmi, og það þótt ítarleg rannsóknarvinna hafi leitt það í ljós að hún hafi ekki haft áhrif á niðurstöðu kosninganna. Það fylgir því einfaldlega mikil ábyrgð að takast á hendur hlutverk við framkvæmd kosninga og vinnubrögðin þar voru ekki til marks um virðingu fyrir lýðræðislegum kosningum. Við þurfum að búa svo um hnútana að þetta endurtaki sig ekki.