152. löggjafarþing — þingsetningarfundur

rannsókn kjörbréfa.

[17:07]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ef við ætlum bara að spá og spekúlera út í loftið um hvað okkur finnst líklegast þá finnst mér langlíklegast að það hafi orðið mistök í fyrri talningu sem hafi gefið þær niðurstöður sem síðan leiðréttust í seinni talningunni. Það er það sem mér finnst líklegast. Hv. þingmanni finnst eitthvað annað líklegast, þ.e. að skortur á vörslu gagnanna hafi gert það að verkum að gögnin hafi breyst milli fyrir talningar og seinni talningar. Rannsókn undirbúningsnefndarinnar beindist náttúrlega fyrst og fremst að þeim þætti, að reyna að brúa það bil og afla upplýsinga um það eftir öllum mögulegum leiðum, að fylla inn í þá mynd. Hvers vegna gerðum við það? Jú, það var til að sjá hvort það væru einhverjar vísbendingar um, eitthvað sem benti til þess, að átt hefði verið við gögnin á því tímabili og niðurstaða nefndarinnar varð sú að engar vísbendingar væru um það, engin ummerki á kjörseðlum, afstemmingar sem gengu upp, skýringar sem fengust og þess háttar. Við sáum í tveggja mánaða rannsókn engar vísbendingar um það. Þess vegna getum við ekki tekið undir með hv. þingmanni um það að okkur finnist líklegt að þessi galli hafi valdið þessum úrslitum.