152. löggjafarþing — þingsetningarfundur

rannsókn kjörbréfa.

[17:37]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Það er ekki nóg að lýðræðinu sé framfylgt. Það þarf líka að hafa þá ásýnd að því sé framfylgt. Ég upplifi mig í mjög sérstakri stöðu hér í dag. Hingað er ég mætt til þess að hafna eigin kjörbréfi. Það mun ég ekki gera bara einu sinni og ekki tvisvar, þrisvar mun ég hafna mínu eigin kjörbréfi hér í dag.

Spurningin sem okkur ber að svara hér í dag er í rauninni einföld: Er kosningin gild eða er hún ógild? Afleiðingarnar eru staðfesting eða höfnun kjörbréfa sem gefin hafa verið út á grundvelli kosningarinnar. Ég tel að kosningu í Norðvesturkjördæmi þurfi að ógilda. Út frá því virðist gengið í lögum að ógilding kosninga í einu kjördæmi skuli leiða til uppkosninga í því kjördæmi einu en því fylgja ýmis vandamál sem lögin veita litlar leiðbeiningar um hvernig skuli leysa og ýmislegt bendir raunar til þess að fyrirkomulagið hafi verið ákveðið með allt annan raunveruleika í huga, líkt og hv. þm. Björn Leví Gunnarsson kom inn á hér áðan. Fyrir utan augljós pólitísk vandamál, svo sem það að kjósendur í því kjördæmi gangi þá til atkvæða með lokaniðurstöður í öðrum kjördæmum ljósar, eru ýmis praktísk vandræði sem gera þennan kost slæman, ef ekki hreinlega ómögulegan. Frá upphaflegum kjördegi þann 25. september sl. hafa kjörskrár sem dæmi breyst. Ekki aðeins hafa einstaklingar öðlast kosningarétt sökum aldurs og aðrir látið af sínum kosningarrétti heldur kveða lög á um að fjöldi þingsæta í kjördæmi skuli breytast í samræmi við fækkun eða fjölgun á kjörskrá þegar vægi atkvæða milli kjördæma fer umfram ákveðin mörk, sem raunar eru 100% sem er galið út af fyrir sig en það er önnur umræða en sú sem við erum að taka hér í dag.

Það sem skiptir máli fyrir þá ákvörðun sem við þurfum að taka hér í dag er það að einmitt þetta gerðist eftir kosningarnar þann 25. september sem þýðir að þingsætum sem tilheyra Norðvesturkjördæmi hefur fækkað um eitt og þingsætum í Suðvesturkjördæmi hefur fjölgað um eitt á móti. Þetta hefur þegar gerst og tilkynnti landskjörstjórn um þetta þann 1. október sl. Vegna þessa meðal annars og annarra vandkvæða við að hafa uppkosningu í einu kjördæmi er það að mínu mati ekki ákjósanleg lausn, hvorki frá lagalegu sjónarhorni né lýðræðislegu.

Ekki er nóg með að kosningalöggjöfin sé samin miðað við annan raunveruleika en við búum við í dag heldur á það einnig við um enn mikilvægara plagg, sjálfa stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Þó að núgildandi stjórnarskrá lýðveldisins Íslands hafi verið sett til bráðabirgða árið 1944 með það fyrir augum að heildarendurskoðun hennar færi fram, færi strax í gang, endurskoðun sem myndi skila okkur nýrri og betri stjórnarskrá sem endurspeglaði betur stjórnskipan landsins, gildi þjóðarinnar og grundvallarreglur, hafa sumir velkst í vafa um það, jafnvel nú hartnær öld síðar, hvort þörf sé á slíkri endurskoðun eða ekki. En hvað erum við að gera hér í dag? Við erum hingað komin til að dæma í eigin dómsmáli, skera sjálf úr um það hvort við skulum halda þeim sætum sem okkur hafa verið úthlutuð. Fyrir þeim sem var það ekki ljóst fyrir vona ég að það sé nú orðið kristaltært að við þurfum nýja stjórnarskrá sem annars vegar endurspeglar raunverulega stjórnskipan landsins að því marki sem ekki er þörf á að breyta henni, en það gerir núgildandi stjórnarskrá ekki einu sinni, og hins vegar stjórnarskrá sem er í samræmi við mannréttindi sem við álítum sjálfsögð í dag, en voru það ekki við setningu núgildandi stjórnarskrár, og í samræmi við lýðræðisleg gildi nútímans.

Kosningalög voru brotin í Norðvesturkjördæmi, þetta er staðreynd og er á þessum tímapunkti óumdeilt. Lögbrotin sem um ræðir fólust ekki í neinum smáatriðum heldur alvarlegum brotum gegn reglum sem er ætlað að tryggja að treysta megi niðurstöðu kosninga og sannreyna þær, komi upp vafi á síðari stigum.

Sótt hefur verið að lýðræðinu og mannréttindum úr ólíkum áttum á undanförnum misserum. Aukin pólarísering hefur orðið, bæði í umræðu og afstöðu fólks til grundvallaratriða í okkar samfélagi, svo sem jafnréttis kynjanna, réttinda fólks til þess að haga fjölskyldu- og einkalífi sínu eins og því sýnist, heimildar og réttar fólks til að flýja óbærilegar aðstæður og leita friðar á annarri grund. Heimsfaraldur kórónuveirunnar hefur svo neytt stjórnvöld um allan heim til að grípa til aðgerða sem sannarlega fela í sér inngrip í grundvallarmannréttindi okkar á borð við réttindi til að vera frjáls ferða okkar og rétt til líkamlegrar friðhelgi í nafni almannahagsmuna. Í slíku umhverfi kristallast enn betur og enn skýrar en áður mikilvægi frjálsra kosninga þar sem ferlið sjálft er óumdeilt þótt niðurstaðan geti verið umdeild. Það verður að vera yfir allan vafa hafið að handhöfum þess valds að skerða réttindi fólks í nafni neyðarástands, almannahagsmuna eða af hvaða öðrum ástæðum sem er, hafi óumdeilanlega verið falið það vald af því sama fólki sem sér fram á skerðingu réttinda sinna, af almenningi, kjósendum. Þetta á auðvitað við öllum stundum en á tímum víðtækra frelsisskerðinga, þegar hætta á því að stjórnvöld ánetjist valdbeitingunni er aukin, verður þetta augljóst.

Í dag í þessum sal sendir meiri hluti kjörbréfanefndar Alþingis út þau skilaboð að það sé í lagi að kosningalöggjöfin sé þverbrotin á þann hátt sem skapar tækifæri til kosningasvindls án þess að nokkur leið sé til að ganga úr skugga um að það hafi ekki átt sér stað. Hv. þingmönnum, þeim er mynda meiri hluta kjörbréfanefndar, verður tíðrætt um að ekkert bendi til þess að þeir alvarlegu ágallar sem óumdeilt er að voru á kosningunni hafi haft áhrif á niðurstöðu kosningarinnar. Að þessari niðurstöðu hafa þau komist persónulega eftir að hafa velt því fyrir sér, talað við mann og annan sem komið hefur fyrir nefndina og skoðað þau takmörkuðu sönnunargögn sem fyrir liggja um atkvæðagreiðsluna þann 25. september og atburðarásina sem fylgdi í kjölfarið. Meiri hluti kjörbréfanefndar trúir því og treystir að ekki hafi verið átt við gögnin og að tölurnar sem útgefin kjörbréf byggjast á séu þær réttu. Hv. formaður nefndarinnar, Birgir Ármannsson, trúir því persónulega og treystir því að niðurstöður kosninganna hafi verið í samræmi við tölur sem kjörbréf hafa verið gefin út á. Það er auðvitað gott og vel að hv. þingmaður skuli treysta því og það er mjög jákvætt. Það sem er hins vegar að mínu mati ekki jafn gott og vel það er að ætlast er til þess að almenningur, kjósendur sjálfir, einfaldlega trúi honum, og trúi meiri hlutanum og treysti hvað þetta varðar, og það þrátt fyrir að hv. þingmaður, líkt og við hin sem eigum að taka þessa ákvörðun, eigi sjálfur ríkra persónulegra hagsmuna að gæta varðandi þá niðurstöðu.

Allt þetta leiðir til þess að engin önnur niðurstaða er ásættanleg en að hægt sé að tryggja að niðurstöður kosninganna séu réttar, að hægt sé að sýna fram á það að þær séu réttar og hægt sé að sannreyna það. Í þessu tilviki er það ekki hægt.

Túlkun sinni og niðurstöðu til stuðnings vísar meiri hluti kjörbréfanefndar til títtnefnds ákvæðis laga um kosningar til Alþingis sem kveður á um að kosning skuli ógild ef þeir gallar eru á framboði eða kosningu þingmanns sem ætla má að hafi haft áhrif á úrslit kosningarinnar. En hér þarf að spyrja: Sem hver má ætla? Þetta snýst nefnilega ekki eingöngu um lagatúlkun á þessu orðalagi einangruðu út af fyrir sig og tek ég þar undir með hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur um að hér sé ekki eingöngu um lagaákvæði og orðalag þess að ræða heldur grundvallaratriði lýðræðislegra kosninga, að kjósendur hafi trú og traust á því að kosningar fari löglega fram og útkoman úr þeim sé í samræmi við vilja þeirra eins og honum hefur verið lýst með þátttöku þeirra í atkvæðagreiðslu. Það hlýtur því að vera þjóðin sjálf sem er átt við hér. Ef kjósendur sjálfir, þjóðin sjálf, mega ætla að ágallar hafi haft áhrif á niðurstöðu kosninganna þá skal hún ógild. Sönnunarbyrðin hvílir því ekki á kjósendum, á lögreglu, á Alþingi eða öðrum, að sýna fram á að ágallar kosningarinnar hafi ekki haft áhrif á niðurstöðu hennar. Sönnunarbyrðin um það að þjóðin sjálf megi ekki ætla að ágallar á kosningu, sem enginn ágreiningur er um að hafi orðið og það mjög alvarlegir, hafi haft áhrif á útkomu kosninganna hvílir á okkur með þeim hætti að við þurfum að geta sýnt þjóðinni það og sannreynt það. Það er ekki nóg að þau trúi okkar tilfinningu fyrir því, sér í lagi ekki í ljósi þeirrar augljóslega hlutdrægu stöðu sem við erum í, takandi ákvörðun um eigin örlög á þingi.

Í ljósi atvika í því tilviki sem við stöndum frammi fyrir hér er sönnunarbyrðin því ekki einungis þung, hún er ómöguleg. Kjörgögnum hefur verið spillt. Vanræksla og brot á kosningalögum hafa verið með þeim hætti að það er engin leið að komast að sannreynanlegri niðurstöðu um réttar niðurstöður kosninganna. Það er engin leið.

Virðulegi forseti. Þetta er ekki flókið. Ef ekki er hægt að skera úr um niðurstöðu kosninganna með þeim hætti að þjóðin sjálf hafi enga ástæðu til að ætla að ágallarnir hafi haft áhrif á niðurstöðuna er ekkert annað í stöðunni en að kosningin verði ógild.