152. löggjafarþing — 2. fundur,  1. des. 2021.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[20:42]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf):

Virðulegi forseti. Kæra þjóð. Stundum vekur það sem ekki er sagt, meiri athygli en það sem er sagt. Það á við nú, því að forsætisráðherra minntist ekki einu orði á blússandi verðbólgu, hækkandi vexti og verðtryggingu, eða þau áhrif sem þessir þættir hafa á afkomu heimila landsins. Hækkandi vöruverð eitt og sér mun valda mörgum miklum erfiðleikum, ekki hvað síst öldruðum, öryrkjum og einstæðum foreldrum. Erfiðleikar þeirra voru nægir fyrir og ekki á þá bætandi.

Andvaraleysi ríkisstjórnarinnar veldur okkur hjá Flokki fólksins því miklum áhyggjum. Staðan er grafalvarleg og hún kemur fyrst og harðast niður á þeim sem verst eru staddir.

Mér finnst ástæða til að ræða húsnæðiskostnaðinn því að hann er stærsti útgjaldaliður flestra og ræður í raun úrslitum um afkomu heimilanna. Síðastliðna mánuði hefur Seðlabankinn hækkað vexti í þrígang, að sögn til að slá á þenslu og verðbólgu. Ég spyr: Hvernig í ósköpunum eiga hækkandi álögur á íslensk heimili að slá á verðbólgu sem fyrst og fremst stafar af ófyrirsjáanlegum, óviðráðanlegum og utanaðkomandi áhrifum vegna heimsfaraldurs sem hefur haft gríðarleg áhrif um allan heim? Þessar vaxtahækkanir hafa þegar aukið húsnæðiskostnað allra íslenskra heimila svo um munar. Til að bæta gráu ofan á svart er Ísland eina þjóðin í heiminum sem tengir húsnæðislán heimilanna við neysluvísitölu, sem hefur einnig bein áhrif á leigusamninga sem flestir eru verðtryggðir.

Afleiðing verðbólgunnar er sú að höfuðstóll verðtryggðra lána heimilanna hækkar hratt og fyrr en varir mun það valda ört hækkandi greiðslubyrði sem mörg heimili munu ekki standa undir. Á 50 millj. kr. láni hefur höfuðstóllinn hækkað að meðaltali um 170 þús. kr. á mánuði á síðastliðnum tveimur árum. Það meðaltal mun óhjákvæmilega hækka á næstu mánuðum og leiða til aukinnar greiðslubyrði sem mun koma harkalega niður á afkomu þessarar fjölskyldu.

Áhrif vísitölunnar á leigu eru fljótari að koma fram og nú þegar eru mörg dæmi um leigusamninga sem hækkað hafa um tugi þúsunda á mánuði.

Fjölskyldur sem ekki hafa getað losað sig úr gildru verðtryggingar eða eru fastar á leigumarkaði, eru þær fjölskyldur sem hafa hvað minnst á milli handanna og standa hvað verst að vígi til að takast á við hækkandi vöruverð og, það sem verra er, ört hækkandi húsnæðiskostnað að auki.

Ég spyr því: Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera til að verja heimilin? Á ég að trúa því að ríkisstjórnin hafi enga stefnu og enga áætlun um að verja heimili landsins fyrir þeirri ágjöf sem fram undan er? Á virkilega enn og aftur að setja þau undir náð og miskunn fjármálafyrirtækja?

Ríkisstjórnin verður að tryggja að vaxtahækkanir Seðlabankans bitni ekki á heimilunum. Hækkun vaxta gerir lítið annað en að beina fjármunum heimilanna í stútfull uppistöðulón bankanna þar sem yfirflæðið er þegar svo mikið að einn bankinn ætlar að greiða út 88 milljarða í arðgreiðslur í einhverri verstu kreppu sem heimsbyggðin hefur séð um langa hríð. Þar er ekki kreppa. Hvernig í ósköpunum er hægt að réttlæta að fyrirtæki með tugmilljarða hagnað á hverju ári fái í skjóli Seðlabankans og ríkisstjórnarinnar að hækka álögur sínar á fjölskyldur, sem margar hverjar berjast nú þegar í bökkum? Hafa bankarnir ekki fyrir löngu fengið nóg frá íslenskum heimilum?

Flokkur fólksins minnir á að fjölskyldur geta ekki hækkað sína gjaldskrá svo þær geti staðið undir hækkandi skuldbindingum. Þær eru að auki algjörlega varnarlausar gagnvart bönkunum því að ef þær hlíta ekki afarkostum þeirra munu þær á endanum missa heimili sín.

Íslenska ríkið á tvo af þremur bönkum og nú þarf ríkisstjórnin að beita eigendavaldi sínu og grípa inn í þessa oftöku af varnarlausum heimilum landsins sem er algjörlega ónauðsynleg. Bankarnir þurftu ekki að hlíta ákvörðun Seðlabankans um vaxtalækkanir. Heimilin eiga þær enn inni hjá bönkunum. Það er því ekki lögmál og í raun óforsvaranlegt að bankarnir hækki álögur sínar á heimilin á erfiðum tímum enda eru þeir ekki á flæðiskeri staddir, annað en fjölskyldurnar sem verið er að færa þeim á silfurfati. Bera bankar enga samfélagslega ábyrgð í heimsfaraldri? Hver er samfélagsleg ábyrgð ríkisstjórnar í heimsfaraldri?

Það er hlutverk ríkisstjórnarinnar að verja heimilin. Hún á ekki að standa til baka á meðan stórfelld eignatilfærsla á sér stað frá heimilunum til bankanna, og hún á alls ekki að bæta á byrðar þeirra. Það sama á við minni og meðalstór fyrirtæki. Þau þarf einnig að verja.

Verði ekkert að gert lendum við sem þjóð, áður en langt um líður, út í ófærum með allskyns hremmingum og ómældum kostnaði sem ekki verður allur metinn til fjár.

Við hæstv. forsætisráðherra vil ég segja: Það er mikilvægt og rétt að huga að loftslagsmálum en árangursríkasta loftslagsaðgerðin sem hægt er að fara í er að hlúa vel að heimilum landsins. Áhyggjur af loftslagsbreytingum í fjarlægri framtíð eru sennilega ekki efst í huga fólks sem hefur áhyggjur af því að eiga fyrir næstu máltíð. Og fjölskylda sem á ekki fyrir leigu eða afborgun húsnæðisláns hefur meiri áhyggjur af því heldur en hvernig heimurinn verður ef býflugurnar hverfa.

Það eru erfiðir tímar fram undan og margir einstaklingar og fjölskyldur hafa áhyggjur af framtíðinni, áhyggjur sem munu fara vaxandi verði ekkert að gert. Flokkur fólksins mun berjast fyrir því að heimilin verði varin. Fólkið fyrst og svo allt hitt. Heimilin eru ekki fóður fyrir bankana.

Virðulegi forseti. Kæra þjóð. Ég þakka fyrir mig.