152. löggjafarþing — 2. fundur,  1. des. 2021.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[21:29]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Herra forseti. Gleðilegan fullveldisdag, kæru landsmenn. Við fögnum öll batnandi afkomu ríkissjóðs, það eru jákvæð teikn á lofti. Meiri þróttur er í hagkerfinu og staðan í efnahagsmálum að öllu leyti betri en útlit var fyrir um tíma. Nú þegar horfur eru góðar vil ég minna sérstaklega á mikilvægi hinna dreifðu byggða. Blómleg landsbyggð er lykilforsenda þess að við getum byggt upp og skapað tækifæri fyrir alla landsmenn. Ég fagna því áherslum í byggðamálum í nýjum stjórnarsáttmála þar sem haldið verður áfram að styðja við nýsköpun, ekki síst í fámennari byggðum, og samhliða unnið að eflingu sóknaráætlana landshluta. Ný ríkisstjórn lítur til þess að skoska leiðin í innanlandsflugi, sem var endurskírð á síðari stigum og nefnist nú Loftbrúin, verði áfram mikilvægur þáttur almenningssamgangna. Sem þingmaður Norðausturkjördæmis horfi ég einnig til stefnumótunar þar sem svæðisbundið hlutverk Akureyrar, sem stærsta þéttbýliskjarnans á landsbyggðinni, er skilgreint og stuðlað er að uppbyggingu sem getur boðið upp á fjölbreytileika í þjónustu, menningu og atvinnutækifærum.

Ég minni líka á tækifærin sem felast í Ræktum Ísland, nýrri landbúnaðarstefnu fyrir Ísland. Stefnan byggir á þremur lykilbreytum sem munu verða ráðandi í landbúnaði framtíðar, þ.e. í landnýtingu, í loftslagsmálum og umhverfisvernd og í tækni og nýsköpun. Það verkefni bíður nú þingsins að afgreiða stefnuna sem þingsályktunartillögu. Ég hlakka til umræðna um hana enda landbúnaðurinn lykilatvinnuvegur þjóðarinnar.

Olíuöldin líður nú senn undir lok. Við eigum einstakt tækifæri í grænum orkugjöfum, í jarðvarma, vatnsafli og vindorku. Mikilvægt er að nýta betur þá raforku sem nú þegar er framleidd í landinu, og uppbygging á flutningskerfi raforku er þjóðþrifamál. Orkuskiptin byggja á aukinni grænni orkuframleiðslu og án hennar verður ekki græn bylting í þjóðfélaginu. Ég tek undir þá áherslu ríkisstjórnarinnar að byggt verði á nýlegri orkustefnu þar sem hagsmuna núverandi sem komandi kynslóða er gætt og sjálfbær þróun er höfð að leiðarljósi með jafnvægi milli efnahagslegra, samfélagslegra og umhverfislegra þátta. Um er að ræða risatækifæri fyrir íslenskt samfélag. Í því samhengi er rétt að hafa í huga að undirstöður fjórðu iðnbyltingarinnar eru öflug fjarskipti og græn orka. Það er heillaskref að í stjórnarsáttmálanum sé kveðið á um að sérstök lög verði sett um nýtingu vindorku og áhersla lögð á að vindorkuver byggist upp á afmörkuðum svæðum nærri tengivirkjum og flutningslínum, þar sem unnt verður að tryggja afhendingaröryggi og lágmarka umhverfisáhrif.

Herra forseti. Við þurfum að taka okkur mikið á í þjóðaröryggismálum, þar brakar hressilega í svellinu. Það er bráðnauðsynlegt að öryggi samfélagslegra innviða verði metið með tilliti til þjóðaröryggis landsins og að unnin verði markviss og heilsteypt löggjöf varðandi öryggismál þjóðarinnar. Ég tel nauðsynlegt að slík löggjöf verði samþykkt hér á Alþingi hið fyrsta. Þjóðaröryggislöggjöfin þyrfti m.a. að ná til mikilvægra samgönguinnviða, fæðuöryggis, netöryggis, heilbrigðiskerfisins, raforku- og fjarskiptakerfisins með tilliti til öryggis borgaranna og samfélagsins. Það er umhugsunarefni að nær öll lönd Evrópu búa að slíkri löggjöf og þar er Ísland eitt fárra landa sem teljast til undantekningar.

Góðir Íslendingar. Aðventan er hafin og hátíð ljóss og friðar fram undan. Njótum samvistanna með vinum og ættingjum og látum gott af okkur leiða. — Góðar stundir.