152. löggjafarþing — 3. fundur,  2. des. 2021.

um fundarstjórn.

[10:50]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég held að það skipti máli að setja punktana í samhengi hérna. Allt byrjar þetta með haustkosningum. Stjórnarmyndunarviðræður drógust úr hömlu þrátt fyrir að allir vissu, og vissu það strax á kosninganótt, hver niðurstaðan yrði. Við sjáum síðan hvað hvaða valdi er verið að beita við val í nefndir, eitthvað sem hefur ekki gerst áratugum saman. Og núna þetta. Þetta er allt hluti af sömu birtingarmyndinni. Á fullveldisdaginn stóð hæstv. forsætisráðherra hér með þau skilaboð að þingmenn ynnu fyrir landsmenn alla, burt séð frá flokkslínum, að það ætti að vera leiðarljósið inn í þetta kjörtímabil. En á sama tíma er þeim svo eðlislægt að vanvirða þingið að það hvarflar ekki að formanni fjárlaganefndar að líta til þingsins um það hvernig vinna eigi innan nefndarinnar. Nefndirnar eru þingsins.