152. löggjafarþing — 3. fundur,  2. des. 2021.

um fundarstjórn.

[11:00]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Mig langar að lýsa aðeins smáatburðarás, eins og ég sé þetta gerast. Við í stjórnarandstöðunni vorum ekki til í að semja um ræðutíma í fjárlagaumræðunni út af því að við teljum mikilvægt að taka umræðuna um fjárlög. Þetta eru fyrstu fjárlög nýrrar ríkisstjórnar og það skiptir máli að við fáum góðan tíma til að ræða þau. Það er ekki okkur að kenna að ríkisstjórnin ákveður að halda kosningar í september í staðinn fyrir að gera það að vori sem hefði gefið nægan tíma til að leggja fram fjárlög og eiga góða umræðu um fjárlög. Hver eru viðbrögð meiri hlutans? Formaður fjárlaganefndar, sem hefur setið á þingi síðan 2013, hefur verið í fjárlaganefnd í sex ár og veit vel hvernig reglurnar virka og veit vel hvernig þetta hefur alltaf verið gert, ákveður að senda frumvarpið til umsagnar án þess að kalla nefndina saman sem smáútspil til að kaupa tíma fyrir ríkisstjórnina af því að þau eru hrædd um að brenna inni á tíma með fjárlagafrumvarpið. (Forseti hringir.) Þannig virkar þessi leikur, þess vegna er þetta gert og ég tek þessa afsökunarbeiðni bara alls ekki gilda.