152. löggjafarþing — 3. fundur,  2. des. 2021.

um fundarstjórn.

[11:05]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Það byrjar ekki vel og það byrjaði ekki vel strax í upphafi þegar meiri hluti þessa þings samþykkti kosningu sem óumdeilt var að væri háð gríðarlega alvarlegum annmörkum sem m.a. voru útskýrðir með vísan í að það væri hefð eða venja að fylgja ekki reglum. Þrátt fyrir að ég sé ósammála þeirri ákvörðun að staðfesta þá kosningu — en það var gert hér — hefði maður a.m.k. vonað að þingið myndi draga lærdóm af því ferli. Þá meina ég ekki þann lærdóm að svona vinnubrögð eigi að viðhafa.

Ég er sammála því sem komið hefur hérna fram. Þetta er einkennandi, þetta er orðið ákveðið stef. Ég vona að þessi vinnubrögð séu ekki það sem koma skal á þessu kjörtímabili og ég skora á ríkisstjórnarflokkana að taka ábyrgð á eigin vinnubrögðum, á eigin ákvörðunum, t.d. um að kjósa að hausti, og eigin mistökum.