152. löggjafarþing — 3. fundur,  2. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[14:22]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Frú forseti. Fátækt fólk á líka börn sem munu upplifa neikvæðar afleiðingar loftslagsbreytinga. Þannig að ég hugsa að margir fátækir hafi það í huga hvað slök barátta gegn loftslagsvánni gæti þýtt, gæti haft í för með sér fyrir börn sín og barnabörn. Ég er alveg sammála, við þurfum að gera miklu meira fyrir fátækasta fólkið á Íslandi. Ég tel hins vegar ekki að þetta sé fyrsti staðurinn þar sem við eigum að byrja á að skera niður til þess að svo megi verða. Ég er algerlega sammála hv. þingmanni: Byrjum á bönkunum, byrjum á sjávarútveginum, byrjum á þeim sem mest eiga. En ég vil a.m.k. ekki segja að um leið og fólk er komið undir eitthvert ákveðið tekjumark þá hætti loftslagsbreytingar og baráttan gegn þeim að skipta einhverju máli eða að það sé ekki lengur viðeigandi að ræða það í samhengi við fólk sem hefur minna á milli handanna. Við vitum líka að loftslagsbreytingar munu hafa verstar afleiðingar fyrir fátækasta fólkið í heiminum þannig að ríkt land eins og Ísland verður að gera miklu betur en að leggja fram þessa 13 milljarða.