152. löggjafarþing — 3. fundur,  2. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[15:10]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Það eru einmitt þessar útgjaldatillögur ríkisstjórnarinnar sem ég er að skoða. Ég vísa á bls. 127, þar er einn hlutinn af þeim, hinar eru á bls. 123–125. Þetta er bara þessi veggur af texta, sem eru geðheilbrigðismálin að nafninu til. Ég átta mig ekki alveg á þessu. Ég las einhvers staðar 300 milljónir, að mig minnti, 400 milljónir er kannski rétt. En þegar ég las það var ég einmitt ekki viss hvort um væri að ræða nýju eða gömlu tölurnar, mig rámaði líka í 300 milljónir í þessi mál í einhverjum gömlum tillögum, gömlum fjárlögum o.s.frv. Ég klóra mér því bara í hausnum eins og ég geri mjög oft í umræðum um þetta. Ég minni á tillögu Helga Hrafns Gunnarssonar, sem var samþykkt 2015, um tölvutækt snið þingskjala, þ.e. að þetta sé ekki pdf-skjal eða bók sem við þurfum alltaf að vera að vesenast í — enn á eftir að uppfylla þá þingsályktunartillögu og ég sé ekki að nokkur skref hafi verið stigin í átt að því að klára það.