152. löggjafarþing — 3. fundur,  2. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[15:40]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni þetta. Það kom fram hjá félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra í gær að hér væri bara verið að stíga fyrstu skrefin eins og með þessari prósentuviðbót. Eins og við þekkjum og höfum oft rætt þá er stærsta hagsmunamálið að gera tryggingakerfið einfaldara, gera það gagnsærra og réttlátara. Það þýðir auðvitað að það þarf að taka á þessum skerðingum sem við stöndum frammi fyrir, okkur hefur ekki tekist það fram til þessa. En við verðum að ná árangri í því. Í stjórnarsáttmálanum eru áform um að gera atlögu að því og auk þess að auka möguleikana hjá fólki sem er með skerta starfsgetu til endurhæfingar og atvinnuþátttöku en líka að tryggja afkomu þeirra sem geta ekki unnið og það gerum við ekki með kerfinu eins og það er eða það gengur a.m.k. mjög hægt. Þess vegna held ég að það sé alveg grundvallarforsenda að við náum einhvers konar niðurstöðu og einhvers konar sátt. (Forseti hringir.) Við reyndum það á síðasta kjörtímabili og það gekk ekki þannig að við verðum að halda því verki áfram.