152. löggjafarþing — 3. fundur,  2. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[15:48]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langaði til að spyrja hv. formann fjárlaganefndar um geðheilbrigðismál vegna þess að það er töluverð umfjöllun um þau í fjárlagafrumvarpinu, sem er af hinu góða. Ég held að við séum öll sammála um það að geðheilbrigðismál hafa, í allri þeirri miklu umræðu sem átti sér stað um heilbrigðismál í kosningabaráttunni, verið mjög ofarlega í huga kjósenda allra, ekki síst hjá ungu fólki. Ég ætla að spyrja að því sem ég hef margsinnis spurt að hér í þingsal en það er um samþykkt laga um niðurgreiðslu á sálfræðiþjónustu. Það er heilbrigðisverkefni og aðgerð sem er tvímælalaust mikilvægt stuðningsúrræði fyrir fjölskyldur landsins, ungt fólk og tekjulægra fólk. Það er ekki vikið að þessu efni og ekki fjallað um það sérstaklega í fjárlagafrumvarpinu. Ég leyfi mér að binda vonir við þetta vegna þess að lögin eru orðin að veruleika og vegna þess að geðheilbrigðismálin skipa greinilega stóran sess í huga ríkisstjórnarflokkanna þriggja. Ég spyr hvort formaður fjárlaganefndar ætli að styðja okkur í því að raungera þessi lög þannig að þessi þjónusta verði í boði fyrir almenning í landinu.