152. löggjafarþing — 3. fundur,  2. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[16:32]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er í fyrsta skipti sem ég á orðastað við hv. þingmann héðan úr ræðustól þó að við höfum talað saman og unnið saman áður. Ég vil því nota tækifærið og óska hv. þingmanni til hamingju með kjörið. En hann byrjaði á að spyrja býsna krefjandi spurninga. Ég hef velt þessu fyrir mér frá því að ég sá fyrstu drög að nýrri verkaskiptingu ríkisstjórnar, þó að enn skorti upplýsingar, og hef ekki alveg fengið botn í það hvernig verkefnum verður í rauninni skipt, því að það virðist vera mjög óljóst. Sums staðar er um tvítekningu að ræða og sums staðar virðast verkefni jafnvel hafa fallið milli skips og bryggju. Hvað varðar slíkar tilfærslur almennt þá eru ákveðin tilvik að mínu viti sem geta kallað á slíkt með breyttum aðstæðum með því að menn reyna einfaldlega að bæta stjórnkerfið.

En þessi ríkisstjórn þarf líklega að þakka fyrrverandi forsætisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur, fyrir tækifærið til að stokka upp að vild, því að það var hún sem leiddi í lög slíkar heimildir. Ef ég man rétt þá voru þáverandi Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur ekkert sérstaklega hrifnir af þessu og fyrir liggja allmargar ræður og það sem sumir myndu eflaust kalla málþóf þar sem þessi losarabragur, eins og ég held að það hafi verið kallað þá, var gagnrýndur. Ég dreg þó ekki úr því að það geta vissulega verið tilefni til þess að færa til verkefni og endurskipuleggja ráðuneyti þannig að þau virki betur. En það sem ríkisstjórnin hefur kynnt hvað þetta varðar er ekki til þess fallið að mínu viti að láta ráðuneytin virka betur, hvað þá að fólk fái skýrari sýn — fólk, fyrirtæki, stofnanir, starfsmenn ríkisins — á það hvar ábyrgðin liggur raunverulega. Og það getur verið hættulegt.