152. löggjafarþing — 3. fundur,  2. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[16:39]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa athugasemd. Það er rétt sem hv. þingmaður segir, ég hafði þetta eftir ráðherranum úr ræðu hér áðan. Ég tek þó fram að þessi milljarðs króna hækkun bætist við, eftir því sem mér skilst, það sem fyrir var þannig að það er ekki eins og verið sé að byrja á núllpunkti og fara í fyrsta milljarðinn á næsta ári. Þetta er upphæð, sem er með öðrum orðum umtalsverð, hækkar og hækkar og á að hækka áfram. Talnaleikfimi? Vissulega. Ég tek líka undir það með hv. þingmanni vegna þess að við vitum ekkert hvað fæst fyrir þetta. Hvað hefur fengist fyrir þetta til þessa? Jú, m.a. styrkir til ljóðskálds til að semja ljóð um svokallaða hamfarahlýnun. Eflaust er eitthvað af þessu notað eða stendur til að nota í það að eyðileggja það landbúnaðarland sem hefur verið nýtt á síðustu áratugum og jafnvel öldum á Íslandi með því að moka ofan í skurði með algerlega óljósum áhrifum sem geta þó orðið til tjóns.

Það er vegna þess að þessi málaflokkur, alveg sérstaklega — og ég veit að ég og hv. þingmaður erum mjög ósammála um nálgun í þessum málaflokki — einkennist umfram aðra málaflokka af umbúðum, af því að sýnast, af því að segjast vera að setja svo og svo mikla peninga í eitthvað fremur en árangri og raunverulegum mælingum á því hvaða árangur næst með aðgerðum stjórnvalda.

Þess vegna horfum við fram á það að meginnálgun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum er að auka aukaútgjöld. Í hvað eiga þessi útgjöld að nýtast? Kannski í það að moka ofan í skurði. En aðalatriðið er að auka útgjöldin til að geta svo mætt á einhverjar ráðstefnur erlendis og sagt: Við erum búin að auka útgjöld í þennan málaflokk um svo og svo mörg prósent þannig að við stöndum okkur vel.